Obama svarar Netanyahu fullum hálsi

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, fordæmdi í gærkvöldi, tilraunir Barack Obama, Bandaríkjaforseta, að ná samkomulagi við stjórnvöld í Íran. Netanyahu varar við því að bandarísk yfirvöld séu með þessu að veita Íran aðstoð við framleiðslu á kjarnorkusprengju.

Eftir að Netanyahu flutti tilfinningaþrungna ræðu á Bandaríkjaþingi í gærkvöldi svaraði Obama í sömu mynt og sagði að leiðtogi Ísraels hafi ekki haft sig í frammi við að koma í veg fyrir hættuna sem stafi af Íran. Á sama tíma situr utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, á fundi í Sviss þar sem viðræður standa yfir um kjarnorkuáætlun Írana. Þar er einkum rætt um að takmarka möguleika Írana á framleiðslu kjarnorkuvopna gegn því að slakað verði á efnahagsþvingunum í þeirra garð. Það voru repúblikanar, sem eru með meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings, sem buðu Netanyahu að ávarpa þingið í gærkvöldi.

Einungis tvær vikur eru til þingkosninga í Ísrael og er hart barist um hylli kjósenda. Netanyahu hefur verið harkalega gagnrýndur fyrir að spilla nánum samskiptum Ísraels við Bandaríkin í þeim eina tilgangi að auka vinsældir flokks síns.

„Samningurinn mun ekki koma í veg fyrir að Íranar framleiði kjarnorkuvopn,“ sagði Netanyahu í ræðu sinni í gærkvöldi og bætti við að samningurinn gerði ekki annað en að gulltryggja aðgang Írana að slíkum vopnum.

Obama fylgdist ekki með ræðu forsætisráðherrans en hann hafði skipulagt myndfund með leiðtogum Evrópusambandsríkjanna vegna Úkraínu á sama tíma. Eftir að Netanyahu hafði flutt ræðuna sagði Obama að hann væri ekki að einblína á stjórnmál í þessu samhengi og ekki leikhústilburði. Það sem stæði eftir væri að það hefði ekkert nýtt komið fram í ræðunni.

Það sem skipti mestu er hvernig verði komið í veg fyrir að Íranar framleiði kjarnorkuvopn en með þeim yrði ríkið mun hættulegra, og að sögn Obama gat hann ekki skilið ræðu forsætisráðherrans þannig að þar væri einhverjar lausnir að finna á þeim vanda.

„Við höfum ekki enn gert samkomulag (við Íran),“ sagði Obama. „En ef okkur tekst vel til þá verður þetta sennilega besta mögulega samkomulagið til þess að koma í veg fyrir að Íranir eignist kjarnorkuvopn,“ bætti Obama við.

Líkt og Bogi Þór Arason, bendir á í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í síðustu viku hefur verið grunnt á því góða með Obama og Netanyahu frá því að þeir tóku við völdunum í löndum sínum árið 2009, m.a. vegna ágreinings um landtökubyggðir gyðinga og fleiri deilumála sem hafa hindrað friðarviðræður milli Ísraela og Palestínumanna. Spennan á milli leiðtoganna hefur þó aldrei verið eins mikil og nú.

„Bandarískir stjórnarerindrekar telja að Obama geti samþykkt samninginn og framfylgt honum að mestu án stuðnings þingsins. Þingmenn gætu þó lagt steina í götu forsetans, meðal annars með því að neita að aflétta refsiaðgerðum gegn Íran vegna kjarnorkudeilunnar eða samþykkja jafnvel nýjar. Það gæti síðan orðið til þess að Íranar riftu samningnum.

John Boehner, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, bauð Netanyahu að ávarpa þingið og talið er að hann hafi gert það til að snupra Obama fyrir stefnu hans í viðræðunum við Írana. Forsetinn hefur neitað að ræða við Netanyahu þegar hann heimsækir Washington og utanríkisráðherrann og varaforsetinn verða ekki í borginni. Stjórnmálaskýrendur telja að með þessu séu Obama og embættismenn hans að senda Ísraelum þau skilaboð að þeir styðji ekki Netanyahu í þingkosningum sem fara fram í Ísrael 17. mars. Skoðanakannanir benda til þess að forsætisráðherrann og flokkur hans standi vel að vígi í kosningunum.

Susan E. Rice, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, sagði fyrr í vikunni að framganga Netanyahus í málinu væri „skaðleg“ vegna þess að hún græfi undan einingu flokkanna í stuðningnum við Ísrael. „Tengsl ríkjanna hafa aldrei verið jafnafleit og nú,“ hefur The New York Times eftir Giora Eiland, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa stjórnvalda í Ísrael.

Ummæli Rice eiga sér engin fordæmi í samskiptum stjórnvalda í Bandaríkjunum og Ísrael, að sögn Eytans Gilboa, prófessors við Bar-Ilan-háskóla í Ísrael. Hann sagði í útvarpsviðtali að ljóst væri að samstaða bandarísku flokkanna í málefnum Ísraels hefði rofnað,“ sagði í fréttaskýringu Boga Þórs um samskipti Ísraels og Bandaríkjanna á föstudaginn.

Benjamin Netanyahu
Benjamin Netanyahu AFP
Barack Obama
Barack Obama AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert