Dæmd fyrir morð á albínóa

Frá Tansaníu.
Frá Tansaníu. AFP

Fjórir hafa verið dæmdir til dauða í Tansaníu fyrir morð á konu sem var albínói. Drápu fjórmenningarnir konuna árið 2008 því þau töldu að líkamspartar hennar byggu yfir galdrakröftum. 

Fórnarlambið, hin 22 ára gamla, Zawadi Mangidu átti níu mánaða gamalt barn er hún lést. Eiginmaður konunnar er meðal þeirra dæmdu. 

Forseti Tansaníu hét því í vikunni að berjast gegn morðum á albínóum, en þeir eru yfirleitt myrtir vegna hjátrúar. Samkvæmt frétt BBC um málið halda töfralæknar því fram að seyði gerð úr líkamspörtum albínóa boði gæfu og auð. Forseti landsins, Jakaya Kikwete, sagði að þær sögur væru falskar og kyndi undir illsku í landinu. 

Að sögn fréttaritara BBC í Dar Es Salaam, Hassan Mhelela, er ekki víst hvort að fólkið verði tekið af lífi, en hlé var gert á dauðarefsingum í landinu árið 1994. 

Aðeins eru nokkrar vikur síðan að ársgamall albínóadrengur, var myrtur í Tansaníu. Hafa yfirvöld bannað töfralækna til þess að reyna að stöðva morð og rán á albínóum. 

Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum eru töfralæknar tilbúnir til þess að greiða 75.000 bandaríkjadali eða tíu milljónir íslenskra króna fyrir líkamsparta albínóa. 

Að minnsta kosti 75 albínóar hafa verið myrtir í Tansaníu síðan 2000. Albínóar eru nokkuð algengir í Tansaníu, en einn af hverjum 1400 sem fæðast í landinu er albínói. Í flestum vestrænum ríkjum er hlutfallið einn á móti 20.000. Sumir telja að algengni albínóa í landinu tengist innræktun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert