Ráðist á sendiherra Bandaríkjanna

Skjáskot af vefsíðu CNN

Ráðist hefur verið á sendiherra Bandaríkjanna í Suður-Kóreu, samkvæmt CNN. Mögulegt er að um fleiri en einn árásarmann hafi verið að ræða. Sendiherrann, Mark Lippert, hlaut sár af völdum rakvélarblaðs en hann er ekki í lífshættu.

Samkvæmt talsmanni bandaríska sendiráðsins er ástand Lippert stöðugt.

Árásin átti sér stað í Seoul. Samkvæmt fréttastöðinni YTN var Lippert í þann mund að flytja ræðu á morgunverðarviðburði í Sejong Hall þegar ráðist var á hann. Í frétt söðvarinnar er ekki annað sagt um árásina en að öskur hafi heyrst og að sendiherrann hafi verið fluttur á spítala blóðugur.

YTN segir að einstaklingur hafi verið handtekinn, grunaður um árásina, og hann beri eftirnafnið Kim. Þá kemur einnig fram að sendiherrann hafi hlotið sár á andliti og höndum.

Að sögn embættismanns innan lögreglunnar var ráðist á Lippert með litlu rakvélarblaði. Hann hafi hlotið sár á hægri kinn og hendi. Verið sé að hlúa að sárum hans.

Barack Obama hefur verið í sambandi við sendiherrann til að tjá honum að hann og eiginkona hans, Robyn, séu í bænum hans. Þá hefur hann óskað Lippert skjóts bata, að sögn talsmanns bandaríska þjóðaröryggisráðsins.

Að því er fram kemur á CNN hefur Lippert verið náin samstarfsmaður Obama frá 2005. Hann starfaði um tíma í Hvíta húsinu sem ráðgjafi um þjóðaröryggismál. Sjálfur hefur Obama lýst honum sem nánum vin.

Nánar má lesa um árásina hjá CNN.

Uppfært kl. 00.25:

Washington Post hefur eftir fréttastofunni YNA að árásarmaðurinn hafi öskrað „Nei, ekkert stríð! Það á að sameina Kóreurnar tvær,“ þegar hann réðist á Lippert. Hann heiti Kim og sé 55 ára gamall. Þá segir fréttastofan að sami maður hafi kastað steypuklumpi að japanska sendiherranum í Suður-Kóreu árið 2010 og verið dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert