Á sjúkrahúsi í nokkra daga í viðbót

Mark Lippert, sendiherra Bandaríkjanna í Suður-Kóreu, er á batavegi eftir að ráðist var á hann með eldhúshníf aðfaranótt fimmtudagsins og segist staðráðinn að mæta aftur til vinnu sem allra fyrst.

Hann þurfti að undirgangast aðgerð í gærmorgun á sjúkrahúsi í Seúl.

Lippert var viðstaddur morgunverðarfund þar sem hann átti að flytja ræðu þegar tilræðismaðurinn, Kim Ki-Jong, stökk úr sæti sínu, hrópaði slagorð til stuðnings sameiningar Kóreuríkjanna og réðst að sendiherranum. Hlaut Lippert tíu sentímetra langan skurð á hægri kinn og auk þess sár á höndum þegar hann reyndi að verja sig úr sæti sínu.

Kim var snúinn niður og færður á lögreglustöð.

Á blaðamannafundi á sjúkrahúsinu, þar sem gert var að sárum Lipperts, sagði einn af læknum hans að hefði skurðurinn á andliti sendiherrans verið aðeins neðar hefði hálsslagæð Lipperts getað farið í sundur. Taugar sködduðust í vinstri úlnið hans, en læknum tókst að laga þær. Gert er ráð fyrir að hann dvelji á sjúkrahúsinu næstu þrjá til fjóra daga.

Árásin var víða fordæmd, en ríkisfréttamiðill Norður-Kóreu fagnaði henni sem „réttlátri refsingu“ fyrir heræfingar Suður-Kóreumanna með Bandaríkjamönnum, sem hófust fyrr í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert