Fordæmalaus fjöldi aftaka í Sádi Arabíu

Salman bin Abdul Aziz, konungur Sádi Arabíu á fundi með …
Salman bin Abdul Aziz, konungur Sádi Arabíu á fundi með Barack Obama Bandaríkjaforseta. Löndin hafa unnið saman að loftárásum á Ríki íslams í Írak og Sýrlandi. EPA

Stjórnvöld í Sádi Arabíu hafa hálshöggvið marga fanga, m.a. útlendinga sem flutt hafa fíkniefni, frá því í byrjun árs. Amnesty International segir fjölda aftaka í landinu nú ekki eiga sér nein fordæmi. 

Meðal þeirra sem teknir hafa verið af lífi eru fimm Pakistanar, Indverji, tveir Jórdanar og tveir Sýrlendingar. Þrír voru hálshöggnir á þriðjudag, einn þeirra var dæmdur fyrir nauðgun og tveir voru dæmdir fyrir morð. Samtals hafa því 38 manns verið teknir af lífi í Sádi Arabíu í ár eða þrisvar sinnum fleiri en á sama tímabili í fyrra. 

Ekki eru allir sammála um hvers vegna aftökurnar eru svo margar nú. Á síðustu mánuðum ársins 2014 fjölgaði aftökum einnig undir lok valdatíðar Abdullah konungs. Hann lést 23. janúar og við tók Salman.

„Þetta hófst fyrir tíð Salmans,“ segir embættismaður, sem ekki kemur fram undir nafni í fréttaskýringu AFP-fréttastofunnar um málið.

„Stjórnvöld í Sádi Arabíu vilja sýna öllum hvað þau eru sterk, að fólk geti stólað á þau til að halda uppi öryggi í konungdæminu,“ segir heimildamaðurinn.  Markmið stjórnvalda er að berjast gegn öllu ofbeldi en aðgerðirnar eru einnig tengdar við baráttu Sádi Araba gegn ítökum Ríkis íslams.

Í september í fyrra hófu Sádi Arabar þátttöku í loftárásum á Ríki íslams í Sýrlandi í samvinnu við Bandaríkjamenn og fleiri. Þá voru þrír Sádi Arabar handteknir vegna stuðnings við Ríki íslams. Þeir skutu Dana í nóvember og særðu hann. Í janúar létust þrír landamæraverðir í landinu eftir átök við hryðjuverkamenn sem reyndu að komast inn í landið frá Írak, að því er stjórnvöld segja.

„Þeir vilja ekki sýnast linir,“ segir Toby Matthiesen, kennari við háskólann í Cambridge sem hefur sérhæft sig í málefnum Miðausturlanda. Hann segist hins vegar ekki sjá tengingu milli aftakanna og baráttunnar gegn Ríki íslams. Hann telur ljóst að vígamenn hryðjuverkasamtakanna fyllist ekki ótta þó að Sádi Arabar taki fleiri glæpamenn af lífi.

Mannréttindasamtökin Amnesty International taka undir þetta og segja ekki augljós tengsl milli fjölgunar aftaka og baráttunnar við Ríki íslams eða hryðjuverkaógn almennt.

„Það er langsótt að segja að þetta sé tilraun til að hræða fólk frá því að beita ofbeldi því um helmingur þeirra sem tekinn var af lífi í fyrra höfðu verið dæmdir fyrir fíkniefnamisferli, ekki ofbeldi,“ segir sérfræðingur Amnesty, Sevag Kechichian í samtali við AFP. „Það er ómögulegt að segja nákvæmlega til um hvers vegna aftökunum fjölgar.“

Amnesty segir að á tímabilinu 1. janúar-26. febrúar í fyrra hafi aftökurnar verið 11. Þær voru 17 á sama tíma árið 2013 og 9 árið 2012. Í ár eru þær þegar orðnar 38.

Kechichian segir að á undanförnum árum hafi heildarfjöldi aftaka á hverju ári þó verið svipaður. En fjölgunin nú sé án allra fordæma.

Í Sádi Arabíu er hægt að dæma fólk til dauða fyrir nauðgun, morð, vopnuð rán og fíkniefnasmygl.

Mannréttindasamtök hafa m.a. lýst yfir áhyggjum af því að saklaust fólk sé dæmt til dauða og tekið af lífi. Christof Heyns, sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna í réttarfari, sagði í september að að réttarhöld í Sádi Arabíu væru að öllu leyti „gríðarlega óréttlát“. Sem dæmi nefndi hann að oft fá sakborningar ekki leyfi til að hafa verjanda. Þá sagði hann að játningar væru þvingaðar fram með pyntingum.

Sambærilegar yfirlýsingar hafa hins vegar ekki komið frá ríkisstjórnum vestrænna landa. Amnesty sakar vesturveldin um tvískinnungshátt gagnvart Sádi Arabíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert