Mætti sem Christian Grey í skólann

AFP

Ellefu ára dreng var bannað að taka þátt í bókahátíð í skóla sínum í Manchester á Englandi eftir að hann mætti klæddur sem Christian Grey, aðalsöguhetja Fifty Shades of Grey-bókanna.

Samkvæmt frétt Sky News áttu börnin að mæta í skólann klædd sem þekktar persónur úr bókum. Drengurinn, Liam Scholes, mætti í gráum jakkafötum, með grímu og bönd til bindinga. 

Kennarar drengsins hringdu í móður hans og sögðu búninginn óviðeigandi. Fékk Scholes hvorki að taka þátt í hátíðinni né vera með í myndatöku. 

„Hann fór í skólann í jakkafötum, með augngrímu og bönd,“ sagði Nicola Scholes í samtali við Manchester Evening News. „Böndin voru pínulítil og ekki nógu löng til þess að gera eitthvað með þeim.“

Gagnrýndi Nicola jafnframt viðbrögð kennaranna í ljósi þess að umfjöllun um kvikmyndina hefði verið áberandi síðustu vikur. „Þetta er ein af frægustu bókum síðustu ára og það er ekki eins og nemendurnir hafi ekki tekið eftir því,“ sagði hún. 

Bætti hún við að kennari í skólanum hefði mætt klæddur sem fjöldamorðinginn Dexter Morgan úr bókinni Darkly Dreaming Dexter.

„Ég skil ekki af hverju kynlíf er verra en morð,“ sagði hún. „Hann fór með persónu úr bók og aldrei kom fram að barnið hefði þurft að lesa bókina áður. Hann veit að bókin er um kynlíf, en þetta átti ekki að móðga neinn, þetta átti að vera fyndið.“

Sagði hún jafnframt að skólinn hefði hvatt drenginn til þess að breyta persónu sinni í James Bond, sem er, eins og Nicola benti á, lauslát persóna sem drepur fólk. „Ég veit ekki hvort er verra,“ sagði hún. 

Samkvæmt frétt Sky News mun skólinn senda frá sér yfirlýsingu vegna málsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert