Rústuðu fornri borg

Mynd frá Nimrud sem tekin er í júlí árið 2001.
Mynd frá Nimrud sem tekin er í júlí árið 2001. AFP

Meðlimir Ríkis íslams eru að ryðja burt fornu borginni Nimrud í Írak, að sögn stjórnvalda þar í landi. Þetta er enn ein árásin sem hryðjuverkasamtökin gera á fornminjar í landinu.

„Ríki íslams réðst á hina sögulegu borg Nimrud og ruddi niður með stórum gröfum,“ segir í yfirlýsingu frá ráðuneyti ferðamála og fornminja í Írak.

Eyðileggingin hófst í gær. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hafa skemmdarvargarnir ekið stórum trukkum á svæðið og tekið með sér fornmuni.

„Við vitum ekki nákvæmlega hvað þeir hafa eyðilagt,“ segir talsmaður ráðuneytisins.

Nimrud er einn helsti gimsteinn sem varðveist hefur frá Assyríutímabilinu. Borgin var stofnuð á 13. öld fyrir Krist og er við Tígris-ána í um 30 km fjarlægð frá Mosul, annarri stærstu borg Íraks. Mosul er eitt helsta vígi vígamanna Ríkis íslams.

„Því miður var þetta viðbúið. Þeir ætla sér að eyðileggja fornminjar Íraks,“ segir íraski fornleifafræðingurinn Abdulamir Hamdani.

„Hatra verður næst á listanum,“ segir hann en Hatra er mjög vel varðveitt borg sem er yfir 2.000 ára gömul og er á heimsminjalista UNESCO.

Mynd frá Nimrud sem tekin er árið 2001.
Mynd frá Nimrud sem tekin er árið 2001. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert