Hefur „blár“ alltaf verið til?

Himinninn er blár. Eða hvað?
Himinninn er blár. Eða hvað? mbl.is/Ernir

„Blái liturinn“ var ekki til þar til tiltölulega nýlega í mannkynssögunni. Allavega ekki eins og við þekkjum litinn í dag. Þetta skrifar greinarhöfundur Business Insider um bláa litinn.

Vísar hann þar til umfjöllunarefnis þáttarins „Litir“ á Radiolab. Var þar fjallað um að tungumál til forna höfðu ekki orð yfir bláan. „Og án orðs yfir litinn, er engin sönnun fyrir því að fólk til forna hafi yfir höfuð séð hann,“ skrifar Kevin Loria.

Litur hafsins var „vín-dökkur“ í Ódysseifskviðu

Árið 1858 tók fræðimaður að nafni William Gladstone, sem síðar varð forsætisráðherra Bretlands, eftir undarlegum lýsingum á litum í Ódysseifskviðu. Lýsti Hómer þar m.a. „vín-dökka hafinu“. Gladstone tók eftir því að litur hafsins var ekki eina undarlega lýsing Hómers. Lýsti hann járni og kindum sem fjólubláum og hunangi sem grænu.

Gladstone ákvað því að telja litatilvísanirnar í bókinni. Á meðan svartur er nefndur nærri því 200 sinnum og hvítur um 100 sinnum, koma aðrir litir sjaldnar fyrir. Rauður er nefndur sjaldnar en 15 sinnum, og gulur og grænn sjaldnar en tíu sinnum. Gladstone skoðaði aðra texta frá Grikkjum til forna og tók eftir því sama, aldrei var lýst neinu sem „bláu“. Orðið var ekki einu sinni til.

Hann taldi þessa undarlegu lýsingu á litum mögulega einskorðaða við Grikki til forna en textafræðingurinn Lazarus Geiger tók eftir því sama hjá öðrum menningarheimum þegar hann rannsakaði málið frekar. Í þeirri rannsókn skoðaði Geiger m.a. íslendingasögur og forna biblíu á hebresku. 

Þá skoðaði Geiger hvenær „blár“ hóf að birtast í tungumálum og sá hann þar mynstur í tungumálum um allan heim. Öll tungumál höfðu til að byrja með orð yfir svartan og hvítan, eða dökkan og ljósan. Næsta orðið sem varð til, í öllum tungumálunum sem hann skoðaði, var rauður. Liturinn á blóði og víni. Því næst gulur og síðar grænn. Síðasti liturinn til að birtast í öllum tungumálum var blár.

Er himinninn raunverulega blár?

Eina þjóðin til forna til að þróa orð fyrir bláan voru Egyptar, og eins eina þjóðin sem kunni að framleiða bláan lit.  „Ef þú hugsar um það, blár birtist ekki mjög oft í náttúrunni. Það eru nánast engin dýr blá á litinn, blá augu eru sjaldgæf, og blá blóm eru meira og minna gerð af mönnum. Auðvitað er himinninn, en er hann raunverulega blár,“ spyr greinarhöfundur.

Hér má lesa greinina á Business Insider.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert