Flugöryggið aldrei betra

Þegar stórt er spurt verður oft lítið um svör.
Þegar stórt er spurt verður oft lítið um svör. mbl.is/afp

Þrátt fyrir hvarf tveggja flugvéla Malaysia Airlines í fyrra var árið 2014 hið öruggasta í atvinnuflugi, að sögn alþjóðasamtaka áætlunarflugfélaga (IATA).

Stofnun birti skýrslu sína fyrir nýliðið ár í morgun og segir þar, að þrátt fyrir að fleiri hafi farist í flugslysum í fyrra en að meðaltali nokkur undanfarin ár, hafi dauðsföllin verið færri en nokkru sinni þegar miðað væri við fjölda flugferða.

„Þótt flugöryggi hafi verið í kastljósi fjölmiðla 2014 þá sýna talnagögnin að örygginu fleygi fram,“ segir Tony Tyler, framkvæmdastjóri IATA, í tilkynningu um útkomu flugöryggisskýrslunnar. IATA eru samtök um 250 flugfélaga um heim allan.

Í skýrslunni kemur fram, að mannskæð flugslys í áætlunarflugi hafi verið 12 og í þeim hafi 641 maður týnt lífi. Til samanburðar var meðaltalið 19 slys og 517 dauðsföll á ári á árunum 2009 til 2013.

Sé slysatíðnin mæld sem hlutfall af flugvélatjóni á milljón flogna kílómetra reyndist hún 0,23 í fyrra eða sem svarar einu flugslysi á hverjar 4,4 milljónir flugferða.

Árið 2013 var þetta hlutfall ögn hærra, eða 0,41 og fyrir framangreind árin fimm var meðaltalið 0,58 brotlendingar á hverja milljón flugferða.

Í tölum IATA eru örlög flugs MH17, þotu Malaysia Airlines  Flight MH17, ekki talin með og hvarf hennar ekki flokkað sem flugslys þar sem hún var skotin niður yfir Úkraínu með loftvarnarflugskeyti. Allir sem um borð voru, 298 manns, biðu bana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert