Pútín játar plott vegna Krímskaga

Vladímír Pútín Rússlandsforseti.
Vladímír Pútín Rússlandsforseti. mbl.is/afp

Vladímír Pútín hefur gengist við því að gerð hafi verið áætlun um innlimum Krímskagans í Rússland þremur vikum áður en þar fór fram atkvæðagreiðsla um sjálfsforræði.

Rússar lýstu yfir innlimum Krím 18. mars í fyrra og uppskáru alþjóðlega fordæmingu fyrir. Áður höfðu ótilgreindar vopnaðar sveitir tekið völd þar í sínar hendur. Þann 27. febrúar tóku þær þinghúsið og stjórnarbyggingar á sitt vald og drógu rússneska fánann að húni. Meðal sveitarmanna virtust vera rússneskir hermenn sem tekið höfðu merkingar af herklæðum sínum, en fyrir bragðið fengu þeir viðurnefnið „litlu grænu karlarnir“.  Pútín játaði í framhaldinu að hafa sent hersveitir til Krím til að „styðja við bakið á sjálfsvarnarsveitum skagans“.

Í viðtali við rússneska ríkissjónvarpsstöð sem brot var sýnt úr í gærkvöldi segir Pútín, að hann hafi á næturfundi í Moskvu 22. febrúar í fyrra gefið mælt svo fyrir um að undirbúningur að því að endurheimta Krímskaga skyldi hafin.

Efnt var til fundarins eftir að Víktor Janúkovítsj forseti Úkraínu var steypt af stóli. Á sínum tíma í fyrra hélt Pútín því fram, að hann hefði ekkert aðhafst í málefnum Krím fyrr en eftir leynilega en ódagsetta kosningu sem leitt hefði í ljós, að 80% Krímverja vildu ganga aftur í samband við Rússland. Við rússneska ríkissjónvarpið í apríl í fyrra sagði hann að niðurstöður atkvæðagreiðslunnar hefðu fyrst legið fyrir 16. mars.

„Ég boðaði yfirmenn sérsveita okkar og varnarmálaráðuneytisins í Kreml og fól þeim það verkefni að bjarga lífi forseta Úkraínu, sem komið hefði verið fyrir kattarnef ella. Við lukum fundi um sjö að morgni. Þegar við stóðum upp frá borðum sagði ég við samstarfsmenn mínaa alla, „við höfum verið neyddir til að hefja vinnu við að gera Krím aftur að hluta Rússlands“.

Brot úr samtalinu var sýnt í rússneska ríkissjónvarpinu í gær en það var hluti af heimildarmynd um málefni Krímskagans, sem hefur hlotið yfirskriftina „Leiðin til ættjarðarinnar“. Að sögn breska útvarpsins, BBC, hefur ekki  verið látið uppi hvenær hún verður sýnd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert