Takmarka aðgengi að getnaðarvörnum

AFP

Ný lagafrumvörp í Íran munu takmarka stórkostlega aðgengi kvenna að getnaðarvörnum og þær verða hugsanlega útilokaðar frá vinnumarkaðinum nema þær eignist barn. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Amnesty International sem kom út í dag. 

Skýrslan sem ber heitið Þú skalt fjölga þér: Árásir á kyn- og frjósemisréttindi kvenna í Íran greinir frá öfgafullum tilraunum íranskra stjórnvalda til að hvetja til aukinna barneigna í því skyni að sporna gegn fólksfækkun í landinu.

„Lagafrumvarpið mun festa enn frekar í sessi mismunun gegn konum í Íran og færa réttindi kvenna og stúlkna áratugi aftur í tímann. Stjórnvöld stuðla með þessu að hættulegri menningu þar sem grundvallarréttindi eru tekin af konum og þær séðar sem útungunarvélar en ekki manneskjur með grundvallarréttindi til ákvarðana um eigið líf og líkama,“ er haft eftir Hassiba Hadi Sahraoui, talsmanni Amnesty International í málefnum Mið-Austurlanda og Norður-Afríku í fréttatilkynningu frá Íslandsdeild Amnesty International.

Banna sjálfviljugar ófrjósemisaðgerðir

Annað lagafrumvarpið sem um ræðir miðar að auknu barngildi og að koma í veg fyrir fólksfækkun. Það felur í sér bann við sjálfviljugum ófrjósemisaðgerðum, sem talin er önnur algengasta aðferðin til getnaðarvarna í Íran. Frumvarpið takmarkar líka aðgengi að upplýsingum um getnaðarvarnir og rænir þannig konur tækifæri til upplýstra ákvarðana um barneignir. Við þetta bætist að írönsk stjórnvöld hafa skorið niður fjárstuðning við fjölskylduáætlun landsins sem hefur hjálpað milljónum kvenna til að bæta heilbrigði sitt með góðu aðgengi að upplýsingum og aðgengi að getnaðarvörnum.

Frumvarpið var samþykkt á þingi með meirihluta atkvæða í ágúst 2014 og er nú unnið að lagabreytingu innan Verndarráðs Írans, stofnunar sem verður að samþykkja frumvarpið áður en það verður að lögum.

Án aðgengis að slíkri þjónustu og ráðgjöf er hætta á að konur neyðist annað hvort til að ganga fulla meðgöngu gegn vilja sínum eða hætta lífi sínu og heilsu með því að leita sér ótryggrar, ólöglegrar fóstureyðingar. Ótryggar fóstureyðingar eru ein meginorsök mæðradauða á heimsvísu. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni leiddu ótryggar fóstureyðingar á árinu 2008 til dauða 47.000 kvenna og ollu því að fimm milljónir kvenna urðu örkumla. 

Konur gerðar að útungunarvélum

Hitt frumvarpið, sem um ræðir og rætt verður á þingi í næsta mánuði mun ýta enn frekar undir kynjamismunun gegn konum, sérstaklega þeim sem velja að hvorki gifta sig né eignast börn eða geta það ekki af einhverjum orsökum. Frumvarpið fyrirskipar aðilum, bæði í einkageiranum og hinum opinbera að forgangsraða ráðningum í tiltekin störf í þessari röð: karlmenn með börn, karlmenn án barna og giftar konur með börn. Frumvarpið gerir giftu fólki einnig erfitt um vik að skilja og letur lögregluyfirvöld og dómstóla til að grípa inn í fjölskylduerjur sem setur konur í meiri hættu á heimilisofbeldi.

„Frumvarpið sendir skýr skilaboð til kvenna þess efnis að þær séu einskis verðar fyrir utan að vera undirgefnar húsmæður og útungunarvélar, og ýjar að því að konur hafi ekki rétt til að vinna eða stefna á starfsframa fyrr en þær hafi uppfyllt frumskyldur sínar og sinnt hlutverki sínu. Frumvarpið er í hrópandi andstöðu við þá staðreynd að íranskar konur eru í meirihluta þegar kemur að vinna sér inn háskólagráðu og skipa sautján prósent vinnumarkaðarins,“ er haft eftir Hassiba Hadj Sahraoui í tilkynningunni.

Kynjamismunun gegn konum útbreidd í Íran

„Þrátt fyrir yfirlýsingar íranskra stjórnvalda, þar með talið yfirlýsingu forseta landsins, Hasan Rouhani, þess efnis að konur og karlar njóti jafnréttis er raunveruleikinn annar. Kynbundið ofbeldi og kynjamismunun gegn konum í Íran er útbreitt og konum í Íran er meinaður jafn réttur er kemur að hjónabandi, skilnaði, forræði barna, arfi, ferðalögum og jafnvel vali á fatnaði,“ segir í tilkynningu Amnesty.

Samkvæmt írönskum hegningarlögum er konum og stúlkum allt niður í níu ára refsað með fangelsisvist eða sektum sem ekki hylja hár sitt með höfuðklút eða fylgja reglum um skylduklæðnað. Samkvæmt írönskum lögum á kona ekki rétt á framfærslueyri maka síns ef hún neitar að sinna „hjónabandsskyldum” sínum sem getur m.a. falið í sér að neita maka sínum um kynlíf eða að yfirgefa heimilið án samþykkis. Þá er vitnisburður konu fyrir rétti helmingi minna virði en vitnisburður karlmanns og fjárhagslegar skaðabætur fyrir morð eða meiðsl á konu helmingi minni en greitt er fyrir sams konar skaða sem karlmanni er valdið.

Stúlkur eru saknæmar undir níu ára aldri en drengir undir fimmtán ára. Nauðgun í hjónabandi eða heimilisofbeldi er ekki viðurkennt sem glæpsamlegt athæfi. Konur sem gerast sekar um „lesbískt kynlíf” er refsað með 100 svipuhöggum og við fjórða dóm hljóta þær dauðarefsingu. Snemmbúin og þvinguð hjónabönd eru mjög algeng í Íran og voru 41.226 stúlkur frá 10 til 14 ára giftar á árunum 2013 til 2014 og að minnsta kosti 201 stúlka yngri en tíu ára.

Í sumum háskólum landsins mega konur ekki nema tilteknar námsgreinar, allt frá verkfræði til enskra bókmennta en slík stefna er afleiðing af kvóta sem settur er á til að stemma stigu við háu hlutfalli kvenna á meðal háskólanema. Konur mæta einnig hindrunum þegar kemur að áhorfi íþrótta á opinberum íþróttaleikvöngum.

Samkvæmt írönskum hegningarlögum er konum og stúlkum allt niður í …
Samkvæmt írönskum hegningarlögum er konum og stúlkum allt niður í níu ára refsað með fangelsisvist eða sektum sem ekki hylja hár sitt með höfuðklút eða fylgja reglum um skylduklæðnað. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert