Hafa brugðist Sýrlendingum

Stúlkur ganga fram hjá rústum byggingar á leiðinni heim úr …
Stúlkur ganga fram hjá rústum byggingar á leiðinni heim úr skóla á vegum Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna í borginni Aleppo sem er á valdi uppreisnarmanna. AFP

Í nýrri skýrslu hjálpar- og mannréttindasamtaka eru ríki heims gagnrýnd fyrir að hafa brugðist sýrlensku þjóðinni og látið hjá líða að framfylgja ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna vegna stríðsins í Sýrlandi.

Stríðshörmungunum í Sýrlandi er lýst sem „smánarbletti á samvisku alþjóðasamfélagsins“ í skýrslu 21 samtaka, þ.á m. Barnaheilla og Oxfam. Meðal annars er skírskotað til þess að öryggisráðið samþykkti þrjár ályktanir á síðasta ári þar sem allar fylkingarnar í stríðinu voru hvattar til að vernda óbreytta borgara og tryggja hjálparstofnunum aðgang að milljónum Sýrlendinga sem þurfa á hjálp að halda. „Þessar ályktanir, og vonirnar sem þær vöktu, hafa þó verið innantómar og einskisvirði fyrir sýrlenska borgara. Fylkingarnar í stríðinu, önnur aðildarríki Sameinuðu þjóðanna og jafnvel ríki í öryggisráðinu hafa hunsað ályktanirnar eða grafið undan þeim.“

„Svik við hugsjónir okkar“

Alls hafa minnst 210.000 manns látið lífið af völdum stríðins í Sýrlandi frá því að það hófst fyrir fjórum árum, þeirra á meðal að minnsta kosti 65.146 óbreyttir borgarar, þar af 10.664 börn.

Þessar tölur byggjast á upplýsingum sem mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights hafa safnað í Sýrlandi. Samtökin segja að tala látinn sé sennilega „miklu hærri“ vegna þess að ógerningur sé að safna upplýsingum á sumum svæðum sem eru á valdi einræðisstjórnarinnar eða liðsmanna Ríkis íslams, samtaka íslamista. Þar að auki sé ekki vitað um afdrif 20.000 manna í fangelsum sem eru alræmd fyrir illa meðferð á föngum.

Hjálparstofnanir Sameinuðu þjóðanna segja að um 11,4 milljónir manna hafi flúið heimkynni sín vegna stríðsins í Sýrlandi. Þar af hafa nær fjórar milljónir Sýrlendinga flúið til grannríkjanna, en nær átta milljónir eru á vergangi í Sýrlandi. Alls þurfa um tólf milljónir manna á hjálp að halda í Sýrlandi til að lifa af, að sögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Um 4,8 milljónir þeirra eru á svæðum þar sem erfitt er fyrir hjálparstofnanir að veita fólkinu aðstoð og 212.000 manns í bæjum sem eru í herkví.

Hjálparsamtökin segja að ástandið í Sýrlandi haldi áfram að versna og ríki heims hafi aðeins lagt fram 57% af því fé sem óskað var eftir vegna hjálparstarfsins á síðasta ári. „Þetta eru svik við hugsjónir okkar, vegna þess að við ættum ekki að horfa upp á fólk þjást og deyja í hrönnum á árinu 2015,“ sagði Jan Egeland, framkvæmdastjóri Flóttamannráðs Noregs og einn höfunda skýrslu hjálparsamtakanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert