Skýrsla Nemtsov birt í apríl

Boris Nemtsov.
Boris Nemtsov. AFP

Skýrsla Boris Nemtsov, sem var myrtur á götu í Moskvu fyrir tveimur vikum, um átökin í Úkraínu verður birt í aprílmánuði næstkomandi. Skýrslan á að sýna fram á fulla þátttöku rússneskra stjórnvalda í átökunum sem hafa geisað undanfarið ár í austurhluta Úkraínu.

Ilya Yashin, sem er forvígismaður í stjórnarandstöðuhreyfingu Nemtsov, hyggst ljúka við skýrsluna. Hann segir að flest gögnin sem hann þarf á að halda séu enn til staðar, þrátt fyrir að lögregla hafi leitað í bæði íbúð og skrifstofum Nemtsovs.

Nemtsov var einn skeleggasti gagnrýnandi Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands. Hann hafði um nokkurt skeið verið að vinna skýrslu um átökin í Úkraínu sem á að sýna fram á að rússneskir hermenn hafi barist með aðskilnaðarsinnum gegn úkraínskum hermönnum. Stjórnvöld í Moskvu hafa vísað ásökunum á bug.

Fram kom í vikunni að einn þeirra sem er í haldi rússnesku lögreglunnar, sakaður um aðild að morðinu, hafi verið pyntaður til þess að játa á sig morðið.

Dótt­ir Nemt­sov hefur jafnframt sagt að Pútín beri ábyrgð á morðinu á föður henn­ar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert