„Gott fyrir Ísland“

Evrumerkið fyrir utan fyrrverandi höfuðstöðvar Seðlabanka Evrópu í Frankfurt í …
Evrumerkið fyrir utan fyrrverandi höfuðstöðvar Seðlabanka Evrópu í Frankfurt í Þýskalandi. AFP

„Bravó“ og „Gott fyrir Ísland“ var meðal þess sem lesendur fréttavefjar Der Spiegel höfðu að segja um frétt þýska tímaritsins, sem birtist á vefnum á föstudag undir fyrirsögninni „Umsókn dregin til baka: Ísland vill ekki lengur í Evrópusambandið“.

127 athugasemdir voru komnar við fréttina í gær og voru flest á þann veg að afstaða íslenskra stjórnvalda væri lofsverð, þótt ekki ætti það við um alla.

Ýmislegt í frétt Der Spiegel vekur viðbrögð lesenda. Í fréttinni segir að hinir íslensku stuðningsmenn inngöngu í Evrópusambandsins beiti einkum þeim rökum að þá geti „litla landið þeirra“ tekið upp „evruna og aukið þannig efnahagslegan stöðugleika“.

„Ég get bara óskað Íslendingum til hamingju,“ skrifar einn. „Mjög góð ákvörðun. Ég skil ekki hvað á að vera gott við evrulíruna.“

„Synd, en skiljanlegt þegar horft er til þess, sem er að gerast í Grikklandi,“ skrifar annar og heldur áfram án fullkominnar nákvæmni: „Íslendingar fóru gegn uppleggi þríeykisins og kusu frekar ríkisgjaldþrot. Það var eftir á að hyggja rétt ákvörðun. Því annars gengi þeim nú eins og Grikkjum, Spánverjum eða Portúgölum. Þeim gengur betur og hvers vegna ættu þeir að tefla því í hættu! Þetta er mjög, mjög leitt, en því miður einnig mjög skiljanlegt. Þakkað getum við Schäuble [fjármálaráðherra Þýskalands], Merkel [kanslara] og þríeyki Seðlabanka Evrópu, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Vel gert!“

Í fréttinni segir einnig að í fyrra hafi stjórnin ætlað að leggja þingsályktunartillögu um að slíta viðræðum fyrir þingið „án þess að spyrja þjóðina álits fyrst“. Þetta orðalag kallar fram háðsglósur frá lesendum. Einn talar um „ásökunartón“ í fréttinni og bætir við að hann „minnist þess ekki að hafa nokkru sinni verið spurður um nokkurn skapaðan hlut af þýskri ríkisstjórn“. „Af hverju hefur eiginlega aldrei verið haldið þjóðaratkvæði hjá okkur um veruna í ESB?“ spyr annar.

Einn lesandi setur í fyrirsögn að virða eigi ákvarðanir og bætir við: „ ... vonandi lætur ESB litla landið í friði og kyndir ekki á ný undir ólgu bara vegna þess að landið hefur tekið frjálsa ákvörðun“.

Ekki eru þó athugasemdirnar einróma. „Þegar ég les þessar heimskulegu athugasemdir verð ég að eldheitum verjanda ESB.“

„Nú getur maður bara sent hamingjuóskir,“ skrifar hins vegar annar. „Hver fer á bak dauðum hesti?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert