Skutu niður bandarískan dróna

AFP

Sýrlenski herinn lýsti því yfir í dag að hann hefði skotið niður bandarískan dróna yfir strandhéraðinu Latakia sem er á valdi hersins.

Fram kemur í frétt AFP að ef satt reynist sé þetta í fyrsta sinn sem sýrlenski herinn hefur ráðist á bandarískt loftfar síðan Bandaríkjamenn og samstarfsþjóðir þeirra hófu loftárásir á vígasveitir hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams. Ennfremur segir í fréttinni að ríkisútvarp Sýrlands SANA hafi greint frá því að dróninn hafi verið skotinn niður.

Ennfremur segir að sýrlenski herinn hafi til þessa forðast árásir á flugför Bandaríkjamanna og samstarfsþjóða þeirra yfir Sýrlandi. Bandarísk stjórnvöld hafa staðfest að þau hafi misst samband við einn dróna yfir landinu og eru ennfremur að skoða hvað hæft sé í yfirlýsingu sýrlenska hersins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert