Getur myndað hreina hægristjórn

Það þarf að taka víðar til en á stjórnarheimilinu eftir …
Það þarf að taka víðar til en á stjórnarheimilinu eftir kosningarnar í Ísrael. Hér liggja eftirlíkingar af kjörseðlum og áróðursspjöld eins og hráviði um allt. mbl.is/afp

Útlit er fyrir að Benjamin Netanyahu forsætisráðherra geti myndað hreina hægristjórn eftir óvæntan öruggan sigur Likudflokksins í þingkosningunum í Ísrael í gær.

Útgönguspár í gær bentu til þess að Likud og Sionistabandalagið myndu standa jöfn að vígi, en niðurstaðan var allt önnur. Samkvæmt síðustu tölum, en talningu er enn ólokið, fékk Likud 30 þingmenn kjörna en Sionistabandalagið 24, en alls sitja 120 á ísraelska þinginu, Knesset.

Nethanyahu beið ekki boðanna og hóf þegar í stað stjórnarmyndun í morgun og segist ætla ljúka því innan hálfs mánaðar eða þriggja vikna í mesta lagi. Hefur hann þegar rætt við leiðtoga flokka sem hann telur koma til greina til samstarfs um myndun samsteypustjórnar. Þar á meðal eru flokkar strangtrúarmanna og einnig hefur hann gert hosur sínar grænar fyrir miðflokknum Kulanu, sem hlaut 10 þingsæti.

Allt þykir stefna í að Nethanyahu verði forsætisráðherra fjórða kjörtímabilið og verði þar með forsætisráðherra lengur en nokkur annar. Hann hefur þegar haldið upp á sigur með stuðningsmönnum  og lýst árangurinn sem stórkostlegum í ljósi þess, að í skoðanakönnunum í aðdraganda kosninganna mældist Likud alltaf fylgisminni en Sionistasambandið. Leiðtogi þess, Yitzhak Herzog, játaði ósigur flokksins og ræddi við Nethanyahu í morgun um úrslitin og óskaði honum „velfarnaðar“.

„Ekkert hefur breyst, við munum halda áfram baráttunni fyrir samfélagi jafnréttis,“ sagði Herzog við blaðið Haaretz í morgun.

Fréttamaður breska sjónvarpsins, BBC, í Miðausturlöndum segir að eina ferðina enn hafi skoðanakannanir gefið ranga mynd af stöðu mála í Ísrael. Benjamin Netanyahu hafi unnið miklu stærri sigur en jafnvel útgönguspár gáfu til kynna. Hann hafi á síðustu dögum kosningabaráttunnar sýnt og sannað hversu erfiður andstæðingur hann væri og öflugur stjórnmálamaður. Hann hefði dregið Sionistasambandið uppi og síðan skotist fram úr því rétt fyrir marklínuna. Það hafi honum tekist með því að biðla stíft til ákafra hægrisinnaðra þjóðernissinna.

Hann hafði varað við afleiðingum þess fyrir Ísrael ef hann tapaði. Eggjaði hann stuðningsmenn sína á kjörstað með því að benda á að arabar með ísraelskan borgararétt myndu kjósa. Kosningaloforð mörg sem hann gaf þykja til þess fallin að eiga eftir að valda erfiðleikum í samskiptum við Bandaríkin og Evrópu. Meðal annars lofaði hann að láta reisa mörgþúsund byggingar fyrir landnema á herteknu svæðunum. Síðast en ekki síst sagðist hann aldrei samþykkja stofnun ríkis Palestínumanna.

„Þetta er engin gleðistund fyrir okkur og þá sem trúðu á okkar málsstað,“ sagði Herzog og varaformaður Sionistabandalagsins, Tzipi Livni. Þeir voru fylgjandi tveggja ríkja lausn fyrir Palestínumenn og höfðu heitið því að bæta bæði samband Ísraels við Palestínumenn og alþjóðasamfélagið.

Aðal samningamaður Palestínumanna, Saeb Erekat, sagði þegar úrslit kosninganna í Ísrael lágu fyrir, að hert yrði kröfunni um stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna. „Ljóst er að Benjamin Netanyahu mun mynda nýja ríkisstjórn og við munum klárlega tjá henni að við munum fara fyrir Alþjóða stríðsglæpadómstólinn í Haag, og herða á hraða öllum diplómatískum tilraunum til að ná okkar málstað fram,“ sagði Erekat við AFP-fréttastofuna.

Kjörsókn var 72% eða fjórum prósentustigum meiri en í síðustu kosningum, árið 2013. Frá því hlutfallskosningar voru teknar upp hefur engum einum flokki tekist að mynda ríkisstjórn í Ísrael, alltaf hefur þurft fleiri flokka til þess en einn og tvo. Að þessu sinni fékk Sameiginlegi arabalistinn, kosningabandalag flokka ísraelskra araba, hlaut 14 menn kjörna og er þar með þriðji stærsti flokkurinn á þingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert