Lítil börn fylgdust með aftökunum

Peshmerga-liðar fyrr í mánuðinum í Írak.
Peshmerga-liðar fyrr í mánuðinum í Írak. AFP

Liðsmenn Ríkis íslams segjast hafa hálshöggvið þrjá meðlimi hersveita Kúrda í Írak í nýju myndbandi. Hótuðu þeir jafnframt að myrða fleiri ef að Kúrdar hætta ekki sprengjuárásum sínum á yfirráðasvæði samtakanna.

Peshmerga-liðar frá svæðum Kúrda í Írak, berjast nú við Ríki íslams með aðstoð frá Bandaríkjaher. Er barist í norðurhluta Íraks og hafa Kúrdarnir náð að þvinga liðsmenn Ríkis íslams til þess að hörfa til fylkjanna Nineveh og Kirkuk. 

Samkvæmt frétt AFP hefst myndbandið með myndum af fólki á sjúkrahúsi. Rödd í myndbandinu segir að fólkið hafi særst í árásum peshmerga-liða. Fangarnir þrír voru klæddir í appelsínugula galla með bundnar hendur. Má sjá  þá krjúpa, einn í einu, með grímuklæddum skæruliðum sem standa vörð. Síðan eru þeir hálshöggnir. Í myndbandinu má sjá fólk fylgjast með aftökunum, þar á meðal lítil börn. 

Sagt er að myndbandið sé tekið upp í Nineveh þrátt fyrir að nákvæm staðsetning liggi ekki fyrir. Aftökurnar hafa ekki fengist staðfestar frá Kúrdum. 

Einn skæruliðinn ávarpaði svæðisbundinn forseta Kúrda, Massud Barzani og sagði að „með hverri eldflaug sem þú skýtur að múslímum, drepur þú einn af föngunum“.

Í febrúar sendi Ríki íslams frá sér myndband þar sem mátti sjá tugi peshmerga-liða geymda í búrum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert