Segjast ekki hika við að beita kjarnorkuvopnum

Frá Norður Kóreu.
Frá Norður Kóreu. AFP

„Norður-Kórea mun ekki hika við að skjóta kjarnorkusprengjum ef þeim er hótað,“ segir sendiherra landsins í Bretlandi í sjaldgæfi viðtali við Sky News.  Segir hann að ríkið eigi aðgang að slíkum vopnum og geti gripið til þeirra með stuttum fyrirvara.

„Við komum ekki með innihaldslausar fullyrðingar, okkur er alvara. Bandaríkjamenn eru ekki með einkarétt á kjarnorkuvopnum,“ segir sendiherrann í viðtalinu. Aðspurður hvort hann eigi við að Norður Kórea eigi slík vopn, segir hann það rétt.

Í viðtalinu var hann einnig spurður út í ásakanir um að Norður-Kóresk stjórnvöld pynti og misþyrmi eigin borgurum. Ásakanirnar voru bornar fram af flóttamönnum sem flúðu frá Norður Kóreu til Suður Kóreu. „Þetta er allt tilbúningur þessara flóttamanna,“ svaraði sendiherrann og bætir við, harðorður: 

„Veistu hver munurinn er á dýrum og mönnum? Menn eru með siðgæði og vitræna hugsun. Ef fólk er ekki með siðgæði og vitræna hugsun, þá er það ekki neitt. Þess vegna köllum við flóttafólkið sem flýr frá Norður Kóreu dýr. Þau eru einskis virði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert