Líkti Krímskaga við Falklandseyjar

Krímskaginn hefur verið undir rússneskri stjórn undanfarið ár.
Krímskaginn hefur verið undir rússneskri stjórn undanfarið ár. AFP

Rússland á mun ríkari kröfu til Krímskagans en Bretland til Falklandseyjanna. Þetta sagði formaður utanríkismálanefndar rússneska þingsins, Alexei Pushkov, eftir að bresk yfirvöld ítrekuðu fordæmingu sína á ólöglegri innlimun Krímskagans.

„Athugið London: Krím hefur mun meiri ástæðu til að tilheyra Rússlandi en Falklandseyjar hafa til að tilheyra Bretlandi,“ segir Pushkov í færslu á Twitter. Var færslan svar við yfirlýsingu utanríkisráðherra Breta, Philips Hammonds, sem fyrr í dag fordæmdi „svívirðilegt brot Rússa á úkraínskum og alþjóðlegum lögum,“ eins og hann lýsti innlimun Krímskagans í Rússland.

„Innlimun Krím var ólögleg í mars árið 2014 og er ennþá ólögleg í mars 2015. Rússland verður að skila Krím til Úkraínu,“ segir í yfirlýsingu Hammonds.

Argentína gerir enn tilkall til Falklandseyjanna, sem eru 500 kílómetra frá ströndum landsins í Suður-Atlantshafi, en 14 þúsund kílómetra frá Bretlandi. Eyjarnar hafa verið undir stjórn breskra yfirvalda síðan árið 1833, þrátt fyrir innrás Argentínu í eyjarnar árið 1982. Úr varð stríð þar sem næstum þúsund manns féllu.

Íbúar eyjanna hafa ítrekað kosið með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða að lúta áfram breskri stjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert