„Ógnin er viðvarandi“

AFP

Hryðjuverkaógnin hefur aldrei verið jafn mikil í Frakklandi og nú. Ógnin er komin á stig sem hún hefur aldrei farið á áður og er óumflýjanlegt að nýjar árásir verða gerðar. Þetta hefur AFP fréttastofan eftir yfirmanni í franska varnarmálaráðuneytinu sem ekki vill koma fram undir nafni. 

„Ógnin er viðvarandi,“ segir hann og bætir við að ekki líði sá dagur sem viðvörunarljós kvikna og upplýst er um samtök sem reyna að senda fólk til Sýrlands og Írak. Hann segir að leyniþjónustan fylgist nú með mun fleirum en áður og hafi fengið ábendingar um tvö eða þrjú þúsund manns sem grunaðir eru að ætla sér að fremja illvirki.

Hann segir að þetta séu ekki bara leikmenn því margir þeirra eru vel menntaðir atvinnumenn ekki einhverjir sem hafa orðið undir. 

Sérfræðingar í franska varnarmálaráðuneytinu segja að hryðjuverkamennirnir noti besta dulkóðunarbúnaðinn sem völ er á og tækni sem er sú besta.

„Í hvert skipti sem við byrjum að fylgjast með hópi sáum við þá nota sjö eða átta SIM kort og skipta þeim út reglulega. Þeir sem eru slóttugastir koma ekki einu sinni nálægt símum heldur nota þeir skilaboð (messengers).“

AFP hefur eftir yfirmönnum í ráðuneytinu að mesta ógnin sé af þeim 200 sem hafa snúið til baka eftir að hafa verið þjálfunarbúðum eða barist á þeim svæðum sem Ríki íslams ræður yfir í Sýrlandi eða Írak.

„Þeir hafa misst allar hömlur varðandi ofbeldi,“ hefur AFP eftir öðrum sérfræðingi í varnarmálaráðuneytinu sem er sérhæfður í málum tengdum hryðjuverkum.

Jafnframt er vitað um skæruliða sem sitja og bíða, kannski árum saman, áður en þeir grípa til aðgerða. Það var raunin með Kouachi bræðurna sem réðust inn á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo í byrjun janúar. Þeir höfðu í langan tíma tengst hryðjuverkahópi í París og annar þeirra hafði farið í þjálfunarbúðir í Jemen árið 2011.

AFP
EPA
EPA
AFP
AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert