Missti konuna og soninn í flugslysinu

Fjölmargir eiga um sárt að binda eftir flugslysið í gær.
Fjölmargir eiga um sárt að binda eftir flugslysið í gær. AFP

Farþegar í vél Germanwings sem brotlenti í frönsku Ölpunum í gær voru frá nokkrum heimsálfum, flestir frá Evrópu. Vitað er að 150 manns voru um borð í vélinni en svo virðist sem ekki liggi fyrir nákvæmar tölur yfir hversu margir komu frá hverju landi.

Flestir voru frá Spáni og Þýskalandi en þá var einnig að finna ríkisborgara Bretlanes, Ástralíu, Argentínu, Mexíkó, Japan, Ísrael, Tyrklands, Kasakstan, Danmerkur, Hollands, Bandaríkjanna og Belgíu, ef marka má heimildir BBC.

Meðal farþeganna var hin 37 ára Marina Bandres Lopez Belio og sjö mánaða gamall sonur hennar, Julian Pracz-Bandres. Maria hafði búið í Manchester ásamt eiginmanni sínum Pawel Pracz í sjö ár. Hún var ritstjóri og teiknari.

„Marina fór og heimsótti foreldra sína á Spáni vegna útfarar frænda hennar. Hún keypti miðana á síðustu stundu og ákvað að snúa aftur til Manchester svo fljótt sem auðið var,“ segir eiginmaður hennar í samtali við BBC.

Um borð í vélinni voru einnig þrjár kynslóðir úr sömu fjölskyldu; skólastúlka, móðir hennar og amma. Þær eru sagðar hafa verið frá Spáni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert