Öskur áður en vélin fór á fjallið

Brice Robin, fyrir miðju, á blaðamannafundi í dag.
Brice Robin, fyrir miðju, á blaðamannafundi í dag. AFP

Það mátti heyra öskur á upptöku úr flugrita þýsku farþegavélarinnar, rétt áður en henni var vísvitandi flogið á fjallið á um 200 kílómetra hraða. Talið er að allir sem voru um borð hafi látist samstundis.

Þetta er meðal þess sem Brice Robin, saksóknari í Marseille, sagði á blaðamannafundi í dag, er hann útskýrði hvað gerðist er vél GermanWings hóf lág flug að frönsku Ölpunum. Ljóst þykir að aðstoðarflugmaðurinn, sem var einn í flugstjórnarklefanum síðustu mínúturnar, lækkaði flug vélarinnar vísvitandi með þeim afleiðingum að 150 manns, þeirra á meðal tvö ungbörn og sextán menntaskólanemar, létust.

Flugstjórinn hafði brugðið sér á salernið. Hann reyndi svo að komast aftur inn í flugstjórnarklefann en án árangurs. 

„Núna er ekkert sem gefur til kynna að um hryðjuverk hafi verið að ræða,“ sagði saksóknarinn. Hann sagðist ekki líta svo á að flugmaðurinn hafi framið sjálfsvíg. „Þegar þú berð ábyrgð á lífum 150 manns, þá get ég ekki kallað það sjálfsvíg,“ sagði hann á blaðamannafundinum.

Robin sagði að farþegar sem voru um borð hafi aðeins gert sér grein fyrir því sem var að gerast „á síðustu stundu“. Því að „við heyrum aðeins öskrin á síðustu augnablikum upptökunnar [úr flugritanum].“

Aðstoðarflugmaðurinn hét Andreas Lubitz og var 28 ára. Hann var þýskur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert