Óheppilegt slagorð GermanWings

Auglýsingar flugfélagsins GermanWings með slagorðinu „búðu þig undir það óvænta“ hafa verið teknar niður en þær héngu um allt í neðanjarðarlestar kerfi London. Þetta kemur fram á vef BBC.

Lufthansa, móðurfélag GermanWings hefur nú ákveðið að taka upp þá reglu að ávallt verði að vera tveir inni í flugstjórnarklefanum. Slík regla er í gildi í Bandaríkjunum en almennt ekki hjá evrópskum flugfélögum.

Icelandair og WOW air eru meðal þeirra flugfélaga sem ákváðu í gær að taka upp regluna.

Aðstoðarflugmaðurinn var einn í flugstjórnarklefanum er hann breytti sjálfstýringu vélarinnar og flaug henni á fjall. Flugstjórinn hafði brugðið sér á salernið og er hann snéri aftur hleypti aðstoðarflugmaðurinn honum ekki inn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert