Japanir mæti fyrr til vinnu

Frá japönskum götumarkaði.
Frá japönskum götumarkaði. AFP

Stjórnvöld í Japan hyggjast fara af stað með herferð sem hvetur ríkisstarfsmenn til þess að mæta fyrr til vinnu yfir sumarmánuðina og eins að fara fyrr heim úr vinnunni. Átakinu er ætlað að bæta samspil vinnu og frítíma í landinu.

Forsætisráðherra landsins, Shinzo Abe, segist vilja sjá starfsmenn forðast yfirvinnu og eyða frekar meiri tíma heima hjá sér yfir sumarmánuðina en japanska fréttastofan Kyodo greindi frá þessu og breska ríkisútvarpið í kjölfarið.

Ríkisstjórnin hyggst fara af stað með herferð sem hvetur til betri lífsstíls yfir sumarið þar sem lagt er til að ríkisstarfsmenn mæti til vinnu einum til tveimur klukkutímum fyrr en venjulega í júlí og ágúst, á milli 7:30 og 8:30, og stimpli sig úr vinnu klukkan 17.

Abe segir breytinguna auka afköst starfsmanna í vinnunni og gera starfsmönnum kleyft að eyða meiri tíma með fjölskyldu og vinum en þeir gera nú. Þá segja yfirvöld í Japan að með breytingunni geti karlmenn frekar tekið þátt í uppeldi barna sinna, en fæðingartíðni í Japan er nú í sögulegri lægð.

Frétt mbl.is: Hvetja til hraðstefnumóta í Japan

Abe segir að þrátt fyrir að herferðinni sé beint að ríkisstarfsmönnum vilji hann að einkaaðilar taki þátt í átakinu. Japan er þekkt fyrir langa vinnudaga og er tryggð starfsmanna við vinnuveitenda mikil í Japan. Tryggðin gerir það að verkum að fjölmargir starfsmenn taka sér ekki það sumarleyfi sem þeir eiga inni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert