Leyndi veikindum sínum

Andreas Lubitz, aðstoðarflugmaðurinn sem flaug vélinni á fjallið.
Andreas Lubitz, aðstoðarflugmaðurinn sem flaug vélinni á fjallið. AFP

Aðstoðarflugmaðurinn, sem grandaði farþegaþotu GermanWings í Ölpunum, sagði atvinnuveitendum sínum ekki frá sjúkdómi sínum. Á heimili hans fundust læknisvottorð, m.a. frá deginum sem hann fór í hið örlagaríka flug.

Þetta kom fram í yfirlýsingu þýsks saksóknara í dag.

Andreas Lubitz lækkaði flug farþegaþotunnar viljandi svo hún brotlenti í fjallshlíð. 150 manns voru um borð og fórust allir.

Saksóknarinn í Düsseldorf sagði ekki hver sjúkdómur Lubitz var. Þýskir fjölmiðlar hafa hins vegar heimildir fyrir því að hann hafi þjáðst af þunglyndi.

Ekki hafa fundist nein gögn sem tengja gjörðir flugmannsins við stjórnmál eða trúmál. Þá hefur ekkert sjálfsvígsbréf fundist.

Í yfirlýsingu saksóknarans segir að á heimili Lubitz hafi fundist læknisfræðileg gögn sem bendi til þess að Lubitz hafi verið með sjúkdóm og verið í meðferð vegna hans.

Fram kemur að meðal þeirra gagna sem fundust hafi verið læknisvottorð, sem búið var að rífa. Saksóknarinn segist því draga þá ályktun að flugmaðurinn hafi falið sjúkdóm sinn fyrir vinnuveitanda sínum.

Fram hefur komið að Lubitz tók sér leyfi frá flugþjálfun sinni árið 2009. Vinir hans hafa sagt að þá hafi hann glímt við þunglyndi. Hann hóf svo aftur þjálfun, lauk henni og var ráðinn til starfa hjá GermanWings. Þjálfunina fékk hann hjá móðurfélaginu, Lufthansa.

Leitað að líkamsleifum í brakinu í frönsku Ölpunum.
Leitað að líkamsleifum í brakinu í frönsku Ölpunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert