Minnihlutahópar gætu horfið

Laurent Fabius á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Laurent Fabius á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. AFP

Trúarlegir minnihlutahópar í Mið-Austurlöndunum gætu horfið endanlega ef umheimurinn grípur ekki inn í. Þetta sagði utanríkisráðherra Frakklands, Laurent Fabius, í dag. Vísaði hann þar til árása öfgahópa á trúarlega minnihlutahópa, m.a. jasída og kristna. 

Fabius sagði á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að inngrip alþjóðasamfélagsins væri nauðsynlegt til þess að stöðva ofbeldið gagnvart trúarlegum minnihlutahópum í Mið-Austurlöndum, í síðasta mánuði voru 20 kristnir einstaklingar afhöfðaðir af öfgamönnum í Líbýu. 

„Hættan er á því að minnihlutahóparnir hverfi endanlega,“ sagði Fabius og bætti við að alþjóðasamfélagið mætti ekki leyfa því að gerast. Hann benti á að árið 1987 hafi verið 1,4 milljón kristinna manna í Írak en þeir séu ekki nema 400 þúsund í dag. 

Verndun trúarlegra minnihlutahópa verði gert að aðal markmiði

Fabius kallaði eftir því að gripið yrði til aðgerða til þess að tryggja mannréttindi trúarlegu minnihlutahópanna. Sagði hann að það þyrfti að aðstoða minnihlutahópa við að endurheimta heimilin sín og sagði hann að hersveitir verði sameiginlega að gera verndun trúarlegra minnihlutahópa að sínu aðal markmiði. 

Vian Dakhil, jasídi og þingmaður á íraska þinginu, kallaði eftir tillögum að því hvernig mætti binda enda á ofbeldið gagnvart minnihlutahópunum og samfélagi jasída, sem hún líkti við þjóðarmorð.

„Yfir 420 þúsund af 600 þúsundum jasída hafa verið hraktir frá heimilum sínum og búa nú í tjaldbúðum, sagði Dakhil en hún lýsir Ríki íslams sem hættulegustu hryðjuverkasamtökum heims.

Yfir tvöþúsund jasídum hefur verið „slátrað af Ríki íslams án ástæðu,“ segir Dakhil en bætir við að það sé bara fyrir þær sakir að jasídar iðka aðra trú en Ríki íslams boðar. 

„Konum okkar er nauðgað. Stelpurnar okkar eru seldar og börnin okkar eru flutt á staði þar sem við vitum ekki hvað verður um þau,“ sagði hún.

Vill kæra fyrir Alþjóðastríðsglæpadómstólnum 

Fabius kallaði eftir því að kært yrði fyrir Alþjóðastríðsglæpadómstólnum í Haag en að það sé eitthvað sem Rússar og Kínverjar hafa staðið í vegi fyrir þegar öryggisráðið ætlaði sér að láta einstaklinga bera ábyrgð í Sýrlandi.

Zeid Ra'ad Al Hussein, mannréttindastjóri SÞ, skoraði á meðlimi ráðsins að yfirstíga breytileikann og veita Írak og Sýrlandi réttláta meðferð fyrir Alþjóðastríðsglæpadómstólnum. 

„Þetta öryggisráð verður að grípa til samhljóða aðgerða til þess að binda enda á deilurnar í Írak og Sýrlandi,“ sagði Hussein.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert