Nítján slasaðir eftir eldsvoðann

Fjöldi þeirra sem slösuðust í eldsvoða í New York-borg í gær er kominn upp í nítján. Þrjár byggingar hrundu í eldsvoðanum sem hófst sem sprenging sem tengd hefur verið við gasleka.

Að minnsta kosti fjórir eru alvarlega slasaðir eftir sprenginguna. 

Vitni í kring hafa lýst atburðarásinni og segjast mörg þeirra hafa heyrt háan hvell og séð þykkan reyk rísa til himins. 

„Þetta var rosalega hátt. Gluggarnir titruðu,“ sagði Philip McElroy, 23 ára námsmaður sem var í heimsókn hjá vini sínum tveimur húsaröðum frá.  

Borgarstjóri New York, Bill de Blasio, segir útlit fyrir að framkvæmdir við pípu- og gaslagnir hússins hafi valdið sprengingunni. 

Hefur atvikið hækkað öryggisviðmið í borginni, en ár er liðið frá því að átta létu lífið í gassprengingu í borginni. Þá hrundu tvær íbúðarbyggingar í Austur-Harlem. 

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði borgarinnar varð sprengingin við aðra breiðgötu (121 Second Avenue) en næsta hús (123 Second Avenue) hrundi einnig. 

Rúmlega fimm klukkustundum eftir sprenginguna voru meira en 200 slökkviliðsmenn að störfum við húsin. Rauði krossinn setti upp hjálparstöð í skóla rétt hjá til þess að aðstoða þá sem misstu heimili sín í eldsvoðanum. 

Samkvæmt frétt AFP-fréttaveitunnar eru tveir þeirra sem eru alvarlega slasaðir með brunasár í öndunarfærum. 

Hótel í nágrenninu bauð þeim sem misstu heimili sín upp á ókeypis gistingu í gærkvöldi. Hvatti De Blasio íbúa ekki til þess að hugsa of mikið út í orsök sprengingarinnar fyrr en rannsókn á henni væri lokið, en minnti þá á að bregðast fljótt við fyndu þeir lykt af gasi. 

Fyrri fréttir mbl.is

Eldsvoðinn í myndum

Eldhaf í New York

„Ég fann jörðina hristast“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert