Ófundinn eftir sprenginguna

Þykkur reykurinn sást út um alla borg.
Þykkur reykurinn sást út um alla borg. AFP

Ekkert hefur sést til manns sem var staddur á veitingastað í húsinu þar sem sprenging átti sér stað í New York-borg í gær. Aðeins nokkrum augnablikum áður en sprengingin varð greiddi maðurinn, Nichloas Figureoa, fyrir hádegismat á sushistaðnum Sushi Park ásamt samstarfskonu sinni. Ekkert hefur spurst til hans síðan.

Eldsvoði í kjölfar sprengingarinnar breiddi úr sér í fjögur hús en tvö þeirra hrundu um klukkan 15:20 að staðartíma í gær. Stóðu yfir framkvæmdir í húsinu sem gætu hafa leitt til sprengingarinnar. 

Eins og sagt var frá í morgun eru nítján slasaðir eftir sprenginguna, þar af fjórir alvarlega. Samstarfskona Figureoa missti meðvitund og nefbrotnaði við höggið. Mundi hún aðeins eftir því að hafa farið á veitingastaðinn með Figueroa þegar hún rankaði við sér á sjúkrahúsi. Þetta kemur fram í frétt The Independent. 

Bróðir Figureoa, Tyler, segir að hann sé enn týndur. Hefur fjölskylda mannsins leitað á sjúkrahúsum og verið í sambandi við lögreglu án árangurs. Segir Tyler fjölskylduna ekki skilja hvað mögulega hafi getað gerst. 

Frumrannsóknir sýna að sprengingin hafi orðið vegna gasleka á meðan gert var við pípulagnir í byggingunni sem sprakk. Í  húsinu eru bæði íbúðir, veitingastaðir og búðir. 

Um 250 slökkviliðsmenn voru kallaðir til en um 55 fullorðnir og eitt barn þurftu að leita skjóls í hjálparstöð Rauða krossins í nótt. Eru þau íbúar húsanna og hafa mörg þeirra líklega misst heimili sín í gær. 

Slökkviliðsmenn berjast við eldinn í gær.
Slökkviliðsmenn berjast við eldinn í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert