Skipað að myrða „eiginkonurnar“

Sjálfskipaðir varaliðar gæta öryggis í norðausturhluta Nígeríu. Þeir berjast við …
Sjálfskipaðir varaliðar gæta öryggis í norðausturhluta Nígeríu. Þeir berjast við hlið stjórnarhermanna gegn Boko Haram. EPA

Nígeríski herinn tilkynnti í dag að hann hefði endurheimt bæinn Gwoza úr höndum hryðjuverkasamtakanna Boko Haram, en á síðasta ári lýstu samtökin yfir kalífadæmi í bænum. Fjöldi líka fannst í brunni í bænum, en maður sem var neyddur til að ganga í raðir Boko Haram sagði að leiðtogi samtakanna hefði fyrirskipað aftökur á konum í Gwoza.

Talsmaður varnarmálaráðuneytis Nígeríu, Chris Olukolade, sagði á blaðamannafundi í höfuðborginni Abuja að hernum hefði tekist að ná bænum á sitt vald eftir vel skipulagðar árásir á landi og úr lofti. Hann sagði að fjöldi vopna hefði verið gerður upptækur og að höfuðstöðvar samtakanna í bænum hefðu verið gjöreyðilagðar.

Þá hefur leit hafist að hryðjuverkamönnum á flótta og mögulegum gíslum samtakanna, að sögn Olukolade.

Fyrr í þessum mánuði sögðu íbúar sem höfðu flúið bæin að liðsmönnum samtakanna hefði fjölgað í bænum og að íbúar sem hefðu ekki flúið hefðu verið myrtir. Það vakti vangaveltur um að samtökin undirbyggju nú lokaorrustu eftir að hafa verið hrakin úr fjölda bæja í þremur ríkjum í norðausturhluta landsins.

Usman Ali, 35 ára gamall bóndi, sagði að leiðtoginn Abubakar Shekau hefði ávarpað undirmenn sína 15. mars sl. og sagt þeim að myrða þær konur sem þeir hefðu tekið sér sem eiginkonur.

„Hann sagði að þeir skyldu fara aftur til Gwoza og drepa allar konurnar sem þeir hefðu skilið eftir. Hann sagði að ef þeir dræpu þær ekki myndu þær ekki fylgja þeim í paradís,“ sagði Ali í samtali við AFP. Hann sagðist hafa verið vitni að blóðbaðinu sem fylgdi.

Fyrr í þessum mánuði var sagt frá morðum á konum sem höfðu verið neyddar í hjónbabönd með liðsmönnum Boko Haram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert