Tveir verða í flugstjórnarklefanum öllum stundum

Flugstjórnarklefi.
Flugstjórnarklefi. AFP

Evrópska flugöryggisstofnunin hefur gefið út tilmæli til flugfélaga um að tveir áhafnarmeðlimir skuli vera í flugstjórnarklefanum að hverju sinni, þar af einn atvinnuflugmaður. 

Tilmæli Evrópsku flugöryggisstofnunarinnar fylgja í framhaldi af nýsamþykktum reglum flugmálasamtakanna BDL og samgönguráðuneytis Þýskalands um að tveir áhafnarmeðlimir skuli vera í flugstjórnarklefum öllum stundum í háaloftunum.

BDL tilkynntu fyrr í dag um nýju reglurnar en þær eru settar á kjölfar atburðarins sem varð í vikunni þegar flugmaður þýska flugfélagsins Germanwings flaug vélinni á fjall með þeim afleiðingum að 144 farþegar og sex áhafnarmeðlimir um borð létust. Flugmaðurinn var einn í flugstjórnarklefanum þegar þetta gerðist.

BDL og samgönguráðuneyti Þýskalands funduðu eftir hörmungaratburðinn og var ákveðið á fundinum að tveir áhafnarmeðlimir skyldu vera í flugstjórnarklefanum öllum stundum á meðan flugvélar væru í háaloftunum. Flugfélögin sem eiga aðild að BDL eða þýska flugiðnaðarsambandinu eru Lufthansa og dótturfélagið Germanwings, Air Berlin, Condor og TUIfly, samkvæmt heimasíðu samtakanna.

Tilmælin standa þar til rannsókn flugslyssins lýkur

Á heimasíðu evrópsku flugöryggisstofnunarinnar (EASA) segir að a.m.k. einn lærður atvinnuflugmaður ásamt öðrum áhafnarmeðlimi eiga að vera í flugstjórnarklefanum öllum stundum.

„EASA tilkynnir í dag um tímabundin tilmæli til flugfélaga. Tilmælunum er ætlað að tryggja að a.m.k. tveir áhafnarmeðlimir séu í flugstjórnarklefanum öllum stundum, þar af einn lærður atvinnuflugmaður.,“ sagði stofnunin á heimasíðu sinni.

„Flugfélög ættu að endurmeta öryggisráðstafanir sínar varðandi öryggi þegar áhafnarmeðlimur yfirgefur flugstjórnarklefanum vega aðgerða um borð í flugvélinni eða af líffræðilegum ástæðum,“ segir í tilkynningunni. Þar segir jafnframt að tilmælin séu komin til vegna þeirra upplýsinga sem fram hafa komið um flug 4U9525 Germanwings og að tilmælin verði endurskoðuð þegar rannsókn franskra yfirvalda á flugslysinu lýkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert