Vísvitandi brotlending ekki einsdæmi

Menn fylgjast með annarri flugvél Germanwings hefja sig til lofts.
Menn fylgjast með annarri flugvél Germanwings hefja sig til lofts. AFP

Talið er að aðstoðarflugmaður Germanwings hafi brotlent þotu viljandi í frönsku Ölpunum á þriðjudaginn. Allir um borð létust en þeir voru 150 talsins.

Þó að það sé sjaldgæft að flugmaður eða aðstoðarflugmaður brotlendi flugvél viljandi, hefur það gerst nokkrum sinnum síðustu þrjátíu árin, síðast árið 2013. Samkvæmt fréttaskýringu AFP-fréttastofunnar má rekja fimm flugslys síðustu 33 árin til vísvitandi gjörða flugmanns. 422 létust í þeim flugslysum. 

„Ég hef tekið mína ákvörðun“

Hinn 29. nóvember 2013 hrapaði farþegaþota flugfélagsins Mozambique Airlines í Norðaustur-Namibíu. Var vélin á leið frá Maputo til Luanda, en 33 létust er þotan hrapaði.

Að sögn rannsakenda var það „augljóst ásetningur“ flugmannsins að brotlenda vélinni. Sögðu þeir að flugritinn sýndi að flugmaðurinn  Herminio dos Santos Fernandes hefði notast við sjálfstýringu vélarinnar við það að láta hana hrapa. 

Fjórtán árum áður hrapaði Boeing 767 þota EgyptAir á leið sinni frá New York borg til Kaíró. Hrapaði þotan ofan í Atlantshafið stuttu eftir flugtak og létust allir þeir 217 sem voru um borð. 

Samkvæmt upplýsingum sem mátti hafa úr flugritanum var það flugmaðurinn sem olli hrapinu og heyrist hann lýsa því yfir í upptöku flugritans. „Ég hef tekið mína ákvörðun. Ég set trú mína í hendur guðs,“ á hann að hafa sagt. Egypsk yfirvöld hafa alltaf hafnað þessari útskýringu á slysinu og telja að hægt sé að túlka orð flugstjórans á ýmsan hátt. 

Sjálfsmorð flugmanns „möguleg tilgáta“

19. desember 1997 hrapaði Boeing 737 farþegaþota SilkAir ofan í á í Indónesíu. Var þotan á leið frá Jakarta til Singapúr. Allir 104 farþegar þotunnar og áhöfn hennar létust. Rannsakendur frá Bandaríkjunum halda því fram að flugmaðurinn hafi brotlent vélinni viljandi á meðan rannsóknarnefnd frá Indónesíu komst ekki að niðurstöðu í málinu. Að mati nefndarinnar var sjálfsmorð flugmannsins þó „möguleg tilgáta“.

Rannsakendur flugslysa frá Singapúr sögðu að það væru vísbendingar uppi um að þotunni hefði verið brotlent viljandi og að flugstjórinn hefði átt í fjárhagsvandræðum. Lögregla í Singapúr rannsakaði málið og komst að þeirri niðurstöðu að enginn meðlimur áhafnarinnar hefði átt í fjárhagsvandræðum og fundu „engin sönnunargögn þess efnis að flugstjórinn, aðstoðarflugstjórinn eða einhver meðlimur áhafnar hefði átt í sjálfsmorðshugleiðingum eða haft ástæðu til þess að valda brotlendingunni“.

Flugmaður lifði af brotlendingu

21. ágúst 1994 brotlenti flugstjóri flugfélagsins Royla Air Maroc flugvél í Atlas-fjöllunum stuttu eftir flugtak í Agadir. Var vélin á leiðinni þaðan til Casablanca. Allir um borð létust, 44 talsins. Rannsókn á slysinu, sem byggð var á síðustu orðum flugstjórans, komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði framið sjálfsmorð með því að brotlenda vélinni. 

24 létust þegar flugvél af gerðinni DC-8 hrapaði í Tókýóflóa í Japan. Var flugvélin á vegum Japan Airlines og á leið til Haneda-flugvallarins. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar á málinu átti flugstjórinn við andleg veikindi að stríða. Hann lifði brotlendinguna af. 

Tillagan um að um sjálfsmorð hafi verið að ræða er ein þeirra fjölmörgu sem komið hafa upp við rannsókn á hvarfi farþegaþotu Malaysia Airlines MH370. 239 voru um borð þegar þotan hvarf í mars á síðasta ári. Lítið er vitað um örlög þotunnar nema að slökkt var vísvitandi á samskiptakerfi þotunnar og hún breytti um stefnu. 

MH370 hvarf af ratsjám þann 8. mars á síðasta ári …
MH370 hvarf af ratsjám þann 8. mars á síðasta ári og hefur hvorki tangur né tetur fundist AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert