9 ára stúlka meðal hermanna

Barnahermenn eru vandamál í Suður-Súdan.
Barnahermenn eru vandamál í Suður-Súdan. AFP

Níu ára gömul stúlka var á meðal þeirra hundruða barnahermanna sem frelsaðir voru í Suður Súdan í vikunni. Var þetta stærsta frelsun barnahermanna hingað til í þessari yngstu þjóð heims, samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum.

Þetta er þriðja frelsunin af þessu tagi síðan í maí sl. þegar uppreisnarmenn gerðu samkomulag við yfirvöld. Ekki er heimilt að börn sinni herþjónustu, en í 38. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir: „Tryggja skal börnum á átakasvæðum vernd og umönnun. Börn yngri en 15 ára eiga ekki að taka þátt í vopnaviðskiptum eða sinna herþjónustu.“

Um 250 börn voru frelsuð, en þar af voru fjórar stúlkur. Voru börnunum gefin venjuleg föt í stað herklæða og vopnin tekin af þeim. UNICEF útvegar börnunum svo mat og stað til að vera á þar til þau komast aftur til fjölskyldna sinna, auk þess að veita þeim sálrænan stuðning.

Fyrir viku síðan voru 654 börn skráð hjá UNICEF í landinu, og er heildarfjöldi barna sem frelsuð hafa verið því 1.314 frá því í janúar sl. Hafa Sameinuðu þjóðirnar og Barnahjálpin staðið í samningaviðræðum og ýmiss konar starfi til að frelsa þessi börn.

Af þeim 660 sem hafa verið frelsuð í fyrri aðgerðum hafa um 200 komist aftur til fjölskyldna sinna. 

Fjöldi vopnaðra hópa hafa barist við yfirvöld í landinu síðan Suður Súdan hlaut sjálfstæði árið 2011 eftir áratuga stríð við Khartoum. Ítrekað hefur börnum verið rænt í hermennsku og samkvæmt upplýsingum frá UNICEF hafa yfir 12 þúsund börn verið gerð að hermönnum. 

Í febrúar voru 89 drengir numdir á brott af vopnuðum hópi. Krafðist UNICEF þess að hópurinn sleppti börnunum strax. UNICEF hefur undanfarið beitt sér fyrir frelsun hundruða barna úr vopnuðum hópum og minnt alla sem að málinu koma á það að nota börn til hermennsku er alvarlegt brot á alþjóða lögum.

UNICEF áætlar að 7 milljónir manna hafi orðið fyrir áhrifum átakanna og hungursins í Suður-Súdan. Þar af eru 3,75 milljónir barna. Um 1,5 milljón manns hafa flúið heimili sín, þar af eru 748.500 börn. Um 490.000 hafa flúið til nágrannalanda. Óttast er að þessar tölur tvöfaldist.

Frétt mbl.is: Slepptu 250 barnahermönnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert