Morðingi í tuttugu ára fangelsi

AFP

Æðsti dómstóll Afganistans hefur dæmt lögregluþjón sem skaut þýskan ljósmyndara til bana og særði kanadíska fréttakonu alvarlega í skotárás fyrir tæpu ári síðan í tuttugu ára fangelsi.

Skotárásin átti sér stað í borginni Khost í suðausturhluta landsins í byrjun aprílmánaðar í fyrra. Þýski ljósmyndarinn Anja Niedringhaus lét lífið í árásinni og kanadíska fréttakonan Kathy Gannon særðist. Þær voru báðar starfsmenn AP-fréttaveitunnar og voru að fjalla um forsetakosningarnar í landinu. 

Áður hafði undirréttur dæmt lögregluþjóninn til dauða. Tuttugu ára fangelsi er hámarksfangelsisrefsing í Afganistan, að sögn Zahid Safi, lögfræðings AP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert