Tékkneskum konum sleppt úr haldi mannræningja

Bohuslav Sobotka forsætisráðherra Tékklands.
Bohuslav Sobotka forsætisráðherra Tékklands. AFP

Tveimur konum, sem rænt var í Pakistan árið 2013, hefur verið sleppt úr haldi. Eru þær nú komnar heim til sín, en þær eru frá Tékklandi. Forsætisráðherra Tékklands, Bohuslav Sobotka, sagði frá þessu í dag. 

„Ég get staðfest það að Hana Humpalova og Antonie Chrastecka eru þegar komnar til Tékklands,“ sagði Sobotka í samtali við fréttastöðina CT24.

Bætti hann því við að konurnar, sem eru 26 ára gamlar, voru leystar úr haldi með aðstoð tyrkneskur mannréttindasamtakanna IHH. 

„Nú bið ég fjölmiðla um að virða einkalíf kvennanna,“ bæti forsætisráðherrann við. 

„Ég trúi því ekki að ég sé hér. Jafnvel núna óttast ég að þetta sé draumur,“ hafði ríkisfréttastofa Tyrklands, Anadolu eftir Chratecka.

Kom fram að þær Chrastecka og Humpalova hafi komið til austur Tyrklands í gær. Höfðu samningaviðræður við mannræningjana staðið yfir í tvo mánuði. 

Izzet Sahin, sem stjórnaði aðgerðum IHH við það að fá konurnar lausar, sagði fréttastofunni að fjölskyldur þeirra hafi haft samband við IHH til þess að fá aðstoð. Sagði hann að fjölskyldan hafi reynt alla aðra möguleika áður en þau ræddu við IHH.

Þær Humpalova og Chrastecka, eru bæði sálfræðinemendur. Þeim var rænt 13. mars 2013 í héraðinu Baluchistan er þær voru á leið frá Íran yfir til Pakistan. Voru þær í fríi.

Í myndskeiði sem var birt stuttu eftir að þeim var rænt mátti sjá konurnar biðja um að pakistanska taugasérfræðingnum Aafia Siddiqui yrði sleppt úr haldi í Bandaríkjunum. Var hann fangelsaður árið 2010 grunaður um tengsl við hryðjuverkamenn. Í öðru myndbandi sem birt var tveimur mánuðum síðar mátti sjá Humpalova kalla eftir viðbrögðum frá tékkneskum stjórnvöldum og bað um að lögð yrði pressa á stjórnvöld í Islamabad. 

„Þetta var mjög erfitt. Í fyrsta skipti á ævi okkar sáum við vopn og vopnaða menn,“ sagði Humpalova í samtali við fréttastofu. „Við vitum ekki enn af hverju við vorum teknar. Það voru skothríðir og sprengjur. En við urðum vanar því fljótt.“

Algengt er að erlendum ferðamönnum sé rænt í Baluchistan og norðvestur Pakistan. Leita þar glæpamenn að erlendum ferðamönnum til þess að ræna og sækjast eftir lausnarfé. Stundum hafa þeir afhent talibönum og meðlimum Al-Qaeda gísla sína. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert