Tók forsetann 50 mínútur að kjósa

Forseti Nígeríu, Goodluck Jonathan, var í basli við að kjósa …
Forseti Nígeríu, Goodluck Jonathan, var í basli við að kjósa í dag. AFP

Forsetakosningar fara fram í Nígeríu í dag. Áttu kosningarnar að fara fram í febrúar en var þeim frestað um sex vikur, m.a. vegna árása hryðjuverkasamtakanna Boko Haram í landinu. 

Samkvæmt frétt BBC lítur út fyrir að forsetaframbjoðandinn Muhammadu Buhari muni gera núverandi forseta Goodluck Jonathan erfitt fyrir, en búist er við því að lítill munur verði á fylgi frambjóðendanna.

Hafa báðir frambjóðendurnir heitið því að stöðva ofbeldið sem áberandi hefur verið í landinu vegna Boko Haram. Frá ár­inu 2009 hafa þeir myrt þúsund­ir og þvingað millijón­ir til að flýja heim­ili sín í norðaust­ur­hluta Níg­er­íu. Jafnframt hafa þeir ráðist á þorp í nágrannaríkjum Nígeríu, Tsjad og Kamerún. 

Talsmaður kosninganefndarinnar Kayode Idowu sagði í samtali við AFP-fréttaveituna í dag að kjörstaðir væru nú opnir og að „skráning væri hafin“.

Þurfa kjósendur að skrá sig með fingrafaraskanna áður en þeir geta kosið. Á sumum kjörstöðum gengu skannarnir hægt en sumstaðar vel, samkvæmt fréttariturum BBC.

Tók það til að mynda forsetann sjálfan fimmtíu mínútur að skrá sig í heimaþorpi sínu Otuoke. Samkvæmt fréttaritara BBC þurfti á endanum að skrá forsetann án skannans. 

Voru einnig vandamál á kjörstöðum í borginni Kano. Þar biðu þúsundir kjósenda eftir að fá að kjósa. „Við höfum verið hérna síðan klukkan sex og núna er hún hálf níu,“ sagði Ismail Omar, 65 ára gamall byggingaverktaki í samtali við BBC. 

„Það hefur enginn komið frá Inec (kjörnefndinni), sagði Omar. „Þetta er tilraun til þess að eyðileggja kosningarnar.“

Gen Buhari náði þó að skrá sig í bænum Daura án vandræða og lofaði skráningarkerfið. „Ef fólki er leyft að kjósa, er ómögulegt að falsa úrslitin með þessu kerfi,“ sagði hann. 

Samkvæmt frétt BBC opnuðu sumir kjörstaðir of seint í morgun. Blaðamaður BBC, Will Ross, sem staddur er í höfuðborginni Abuja, segir að langar raðir hafi myndast fyrir utan kjörstaðina. Segir hann jafnframt að kjósendur þurfi líklega að eyða öllum deginum í það að kjósa. 

Eru öryggiskröfur á stöðunum háar og lögreglumenn við alla kjörstaði. Fréttaritari BBC, Tomi Oladipo sagði frá því fyrr í dag að maður með byssu hafi ráðist á kjörstað í Nafada í nígeríska fylkinu Gada. Eiga yfirvöld einnig að hafa fundið bílasprengju við kjörstað í Enugu í suðaustur Nígeríu.  Fannst sprengjan áður en hún náði að springa. Ofbeldi hefur verið áberandi síðustu ár er gengið er til kosninga í Nígeríu. Árið 2011 létust um 800 manns eftir forsetakosningar í landinu. 

Í gær tilkynnti nígeríski herinn að hann hefði endurheimt bæinn Gwoza úr höndum Boko Haram, en á síðasta ári lýstu samtökin yfir kalífadæmi í bænum. Er það því talinn stórsigur fyrir nígeríska herinn og forseta landsins.

Misvel gengur að skanna fingraför kjósenda í Nígeríu í dag.
Misvel gengur að skanna fingraför kjósenda í Nígeríu í dag. AFP
AFP
Fjölmargir biðu í röðum í marga klukkutíma til þess að …
Fjölmargir biðu í röðum í marga klukkutíma til þess að kjósa. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert