Hælisleitendur ekki fleiri í 22 ár

AFP

Fjöldi hælisleitenda hefur ekki verið meiri í heiminum í 22 ár, eða frá því að Balkanstríðin stóðu sem hæst. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna. 

„Af þessum sökum, ekki síst vegna ástandsins í Sýrlandi, stöndum við í sömu sporum og á tíunda áratug síðustu aldar þegar stríð geisaði á Balkanskaga,“ segir António Guterres, flóttamannastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Hann segir að okkur beri að sýna sömu rausn og þá og veita flóttamönnum, sem flýja þessi hræðilegu átök, hæli og tækifæri til að setjast að.

866 þúsund manns sóttu um hæli í iðnríkjum árið 2014 og var það 45% aukning frá fyrra ári, 2013. Þetta er mesti fjöldi hælisleitenda frá því að stríð braust út í Bosníu og Hersgóvínu 1992, að því er segir á vef upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.

150 þúsund hælisleitenda voru Sýrlendingar og næst fjölmennastir voru Írakar eða sjötíu þúsund talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert