Munu tvær konur berjast um forsetaembættið?

Carly Fiorina segir 90% líkur vera á því að hún …
Carly Fiorina segir 90% líkur vera á því að hún sækist eftir tilnefningu Repúblikana fyrir forsetakosningarnar árið 2016. AFP

Carly Fiorina, fyrrum forstjóri tölvuframleiðandans Hewlett-Packard, segir að það séu meira en 90% líkur á að hún sækist eftir forsetatilnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar árið 2016.

Fiorina stjórnaði fyrirtækinu frá 1999 til 2005 þegar hún var látin fara. Hún var fyrsta konan til þess að stjórna fyrirtæki á topp 20 lista Forbes yfir stærstu fyrirtæki heims. Hún útskrifaðist úr Stanford-háskóla með gráðu í heimspeki og miðaldarsögu áður en fór að læra lögfræði í UCLA. Hún hætti þó í því námi og ákvað að taka MBA gráðuvið háskólann í Maryland og síðar stjórnunargráðu við MIT.

Hún vann sig upp í fjarskiptafyrirtækinu AT&T áður en hún var ráðinn forstjóri Hewlett-Packard.

Eftir að hún hætti störfum hjá Hewlett-Packard tók hún sæti í stjórnum nokkurra fyrirtækja auk þess að sinna ráðgjafarstörfum. 

Hún studdi John McCain í forsetaframboði hans árið 2008 og var hún um tíma orðuð við varaforsetaframboð, en Sarah Palin hlaut síðar þá tilnefningu. 

Fiorina reyndi sóttist eftir kjöri í öldungadeild bandaríska þingsins árið 2010 fyrir Kaliforníu en tapaði naumlega fyrir Barböru Boxer, sitjandi þingmanni Demókrata. 

Í samtali við Fox News í dag sagði hún að tilkynning um framboð hennar sé að vænta í apríl eða byrjun maí, þar sem hún sé að vinna að því að mynda kosningateymi. 

Búist er við hörkusamkeppni um forsetatilnefningu Repúblikana. Að margra mati mun slagurinn standa á milli Jeb Bush, Scott Walker, Marco Rubio, Mike Huckabee, Chris Christie og nú einnig Carly Fiorinu.

Hjá Demókrötum er búist við að Hillary Clinton hljóti tilnefninguna. Það getur því farið svo, fái Fiorina tilnefningu Repúblikana, að tvær konur muni berjast um forsetaembætti Bandaríkjanna, í fyrsta skiptið í sögunni.

Sjá frétt CS Monitor

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert