Fundu ljón fyrir tilviljun

Ljón hafa snúið aftur til Afríkuríkisins Gabon en þar hafa þau ekki sést árum saman, enda töldum menn að þeim hefði verið útrýmt. Frá þessu greina bandarísku dýraverndunarsamtökin Panthera.

Faldar myndavélar, sem búið var að koma fyrir í Bateke-þjóðgarðinum í suðausturhluta landsins, náðu myndum af einu karldýri á ferð.

„Þetta er sannarlega einstakt myndefni, og um leið dásamleg sönnun á því að það er enn mögulegt fyrir ljón að lifa í Gabon og í nágrenni,“ sagði dr. Philipp Henschel, sem starfar hjá samtökin. 

„Myndefnið sýnir að vendaraðgerðir stjórnvalda í Gabon, sem hófust með stofnun Batake-þjóðgarðsins árið 2002 í kjölfar rannsókn á ljónum, hafa skilað árangri,“ sagði Henschel ennfremur.

Í frétt AFP-fréttastofunnar segir að í raun hafi það verið hrein tilviljun að ljónið hafi verið fest á filmu, en starfsmenn á vegum þýsku Max Planck-rannsóknarstofnunarinnar höfðu komið vélunum fyrir til að mynda simpansa. Segja má að þarna hafi menn verið ljónheppnir.

Á sjötta áratug síðustu aldar voru mörg ljón á Batake-hásléttunni, en eftir það fór þeim hratt fækkandi vegna ágangs veiðiþjófa og þá var hart sótt að náttúrulegum heimkynnum þeirra. Menn töldu að ljónum hefði verið útrýmt í Gabon. 

Henschel fór fótgangandi mörg hundruð kílómetra ásamt hópi vísindamanna í leit að ljónum árin 2001 og 2003. Þeir urðu hins vegar lítt varir við dýralíf. Panthera sögðu að hópurinn hefði séð fleiri veiðiþjófa heldur en dýr. 

Nú ætla samtökin hefja rannsókn á því hvort ljónið hafi verið eitt á ferð og hafi farið yfir landamærin frá Austur-Kóngó, eða hvort það sé hluti af nýjum ljónahópi sem sé farinn að fjölga sé í Gabon. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert