Hafa fundið líkamsleifar flugmannsins

Andreas Lubitz, flugmaðurinn sem ljóst þykir að hafi brotlent vélinni …
Andreas Lubitz, flugmaðurinn sem ljóst þykir að hafi brotlent vélinni viljandi. AFP

Frönsk yfirvöld telja sig hafa fundið líkamsleifar flugmannsins sem var við stjórnvölinni á Airbus A320 farþegaþotu þýska flugfélagsins Germanwings þegar hún fórst í frönsku Ölpunum í síðustu viku. Fréttavefur Daily Telegraph greinir frá þessu.

Unnið hefur verið að því að bera kennsl á líkamsleifar sem fundist hafa innan um brak þotunnar og hafa þegar verið borin kennsl á hátt í eitt hundrað manns en 150 manns voru um borð þegar hún fórst. Talið er að flugmaðurinn, Andreas Lubitz, hafi með vilja brotlent farþegaþotunni eftir að hafa læst flugstjórann fyrir utan flugstjórnarklefann. Þotan var á leiðinni frá Barselóna á Spáni til Dusseldorf í Þýskalandi.

Fram kemur á fréttinni að Michael Tsokos, prófessor sem fer fyrir réttarmeinafræðingum sem rannsaka líkamsleifar þeirra sem fórust, hafi staðfest að líkamsleifar Lubitz hafi fundist. Réttarmeinarfræðingarnir hafa unnið að því að rannsaka yfir 600 líkamsleifar sem fundist hafa innan um brak farþegaþotunnar. Reiknað er með að þeirri vinnu ljúki í lok apríl. Fundist hafa líkamsleifar 78 einstaklinga til þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert