Hugðust keyra hliðið niður

Höfuðstöðvar NSA í Fort Meade.
Höfuðstöðvar NSA í Fort Meade. AFP

Öryggisverðir skutu einn til bana og særðu annan alvarlega eftir að mennirnir óku bifreið á öryggishlið í Fort Meade í Maryland, þar sem m.a. er að finna höfuðstöðvar Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna.

Reuters hefur eftir alríkislögreglumönnum að tveir einstaklingar reyndu að keyra hliðið niður, en ekki liggur fyrir hvað þeim gekk til. Alríkislögreglan hefur þó gefið út að atvikið tengist ekki hryðjuverkastarfsemi.

Einn lögreglumaður sagði í samtali við Reuters að svo virtist sem um væri að ræða svæðisbundið glæpamál. Aðstoðarfjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Eric Schultz, sagði að forsetanum hefði verið tilkynnt um atvikið.

NBC hefur eftir heimildarmönnum að mennirnir tveir hefðu verið dulbúnir sem konur og á stolnum bíl. Byssa og fíkniefni fundust í bifreiðinni, sem var af tegundinni Ford Escape.

Myndbandsupptökur fjölmiðla, teknar úr þyrlum sem sveimuðu yfir, sýna tvær skemmdar bifreiðar fyrir utan hliðið og að minnsta kosti eina manneskju flutta í sjúkrabíl. Annar bílanna tveggja er merktur lögreglunni og með húddið opið en hinn er dökkur að lit og skemmdur að framan.

Skothríð við Þjóðaröryggisstofnunina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert