Samkomulag ekki í sjónmáli

Alexis Tsipras mætir á ríkisstjórnarfund í Aþenu í gær.
Alexis Tsipras mætir á ríkisstjórnarfund í Aþenu í gær. AFP

Þrátt fyrir miklar viðræður yfir helgina hafa Grikkir og lánadrottnar þeirra enn ekki náð samkomulagi um úrbætur til að greiða fyrir frekari lánveitingum til Grikklands. Sérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins liggja nú yfir tillögum frá ríkisstjórn landsins, en Pierre Moscovici, yfirmaður efnahagsmála hjá ESB, segir viðræðurnar erfiðar.

„Við erum að vinna í jákvæðum anda. Það er ekki einfalt, það er ekki auðvelt,“ sagði Moscovici, fyrrverandi fjármálaráðherra Frakklands, á Evrópuþinginu. Hann sagði að teymi hans ynni að því dag og nótt að komast að jákvæðri niðurstöðu.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, sagði í síðustu viku að listi yfir úrbætur sem grísk stjórnvöld væru reiðubúin til að ráðast í myndi liggja fyrir í dag, en samningaviðræður standa enn yfir um endanlegan lista.

Talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Margaritis Schinas, sagði í dag að sú staðreynd að sérfræðingar hefðu unnið að því alla helgina og fram eftir degi í dag að komast að niðurstöðu sýndi vilja beggja aðila til að vinna saman.

Endanlegur listi þarf að hljóta náð fyrir augum 19 fjármálaráðherra evruríkjanna áður en frekari lánagreiðslur til Grikkja verða samþykktar. Schinas sagði líklegt að efnt yrði til símafundar um málið í þessari viku og ákveðið í framhaldinu hvort boðað yrði til fundar eftir páska.

Tafir á málinu kunna að valda óróa á fjármálamörkuðum, en náist ekki samningar blasir við greiðsluþrot gríska ríkisins og úrganga Grikkja úr evrusamstarfinu. Til stóð að Tsipras svaraði spurningum á gríska þinginu í dag um stöðu viðræðna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert