Kölluðu aðeins til fjögur vitni

Dzhokhar Tsarnaev.
Dzhokhar Tsarnaev. AFP

Verjendur í máli Dzhokhar Tsarnaev luku málflutningi sínum í dag, en þeir kölluðu aðeins til fjögur vitni á meðan ákæruvaldið leiddi 92 vitni fyrir kviðdóminn á fjórum vikum. Málsaðilar munu flytja lokaávörp sín á mánudag.

Verjendur Tsarnaev, sem er sakaður um að hafa myrt þrjá og sært 264 þegar sprengjur sprungu við mark Boston-maraþonsins í apríl 2013, lýstu yfir sekt skjólstæðings síns strax í upphafi réttarhaldsins. Þeir hafa hins vegar leitast við að sýna fram á að eldri bróðir Tsarnaev, Tamerlan, hafi verið arkitekt árásarinnar og að Dzhokhar hafi verið varnarlaus gagnvart áhrifum hans.

Eitt af vitnunum fjórum, fingrafarasérfræðingur alríkislögreglunnar, viðurkenndi fyrir dómi í dag að á mörgum sönnunargögnum í málinu væri aðeins að finna fingraför Tamerlan. Þá sagði tölvusérfræðingur að á tölvu Tamerlan hefði fjöldi leita verið gerður með leitarorðum á borð við „Boston Marathon“, „gun stores“, og „detonator“, en engar slíkar leitir hefðu verið framkvæmdar á tölvu Dzhokhars.

Að sögn sérfræðingsins heimsótti yngri bróðirinn oftast heimasíðurnar Facebook og rússneskan samfélagsmiðil, á meðan sá eldri sótti gjarnan síður þar sem finna mátti uppskriftir að sprengjum

Ef kviðdómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að Tsarnaev sé sekur, verður hann annað hvort dæmdur til dauða eða í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn.

Verjendur Tsarnaev.
Verjendur Tsarnaev. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert