Mögulegt en ekki fyrir páska

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB. AFP

Nýtt samkomulag um skuldastöðu Grikklands er mögulegt en ekki fyrr en fyrr en eftir páska. Þetta er haft eftir Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, í frétt AFP um yfirstandandi viðræður grískra stjórnvalda við sambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Fram kemur í fréttinni að sérfræðingar ESB og AGS vinni enn að því að fara yfir lista yfir efnahagslegar umbætur sem grísk stjórnvöld hafa lagt til gegn frekari lánveitingum svo forða megi því að Grikkland lendi í greiðsluþroti og þurfi að yfirgefa evrusvæðið. Grískir ráðamenn segja að umbæturnar myndu skila 3 milljörðum evra í ríkissjóð án þess að grípa þyrfti til þess að lækka laun eða bætur.

Tusk segir að flókið mál sé að fara yfir tillögur grískra stjórnvalda og hann sjái ekki fyrir sér að mögulegt verði að ljúka þeirri vinnu fyrir páska. Segist hann vonast til að hægt verði að landa samkomulagi fyrir lok apríl. Sjálfur telji hann það mögulegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert