Ákærður vegna dauða bræðranna

Bræðurnir Noah Barthe, fjögurra ára, og Connor, sex ára.
Bræðurnir Noah Barthe, fjögurra ára, og Connor, sex ára. mbl.is

Eigandi gæludýraverslunar í Kanada hefur verið ákærður vegna dauða tveggja ungra bræðra. Um 50 kílóa slanga slapp úr versluninni og kæfði bræðurna.

Eigandinn er ákærður fyrir vanrækslu sem leiddi til dauða, samkvæmt því sem lögreglan segir og Sky-fréttastofan segir frá.

Hann gæti fengið lífstíðarfangelsi ef hann verður fundinn sekur.

Bræðurnir Noah Barthe, fjögurra ára, og Connor, sex ára, fundust látnir í íbúð eigandans sem var fyrir ofan gæludýraverslunina í bænum Campbellton þann 5. ágúst 2013.

Lögreglan segir að slangan, sem er afrísk grjótslanga (e. African rock python) hafi sloppið úr búri sínum og komist upp í íbúðina í gegnum loftræstikerfi.

Þungi slöngunnar varð til þess að loftræstirör gaf sig og féll það ofan úr loftinu í stofunni þar sem drengirnir sváfu. Bræðurnir voru gestkomandi í húsinu en þeir voru að gista hjá vini sínum, syni verslunareigandans.

Við krufningu kom í ljós að þeir höfðu kafnað.

Í kjölfar dauða bræðranna lagði lögreglan hald á 23 skriðdýr í gæludýraversluninni. Dýrin voru öll á lista yfir þau dýr sem bannað er að halda í borginni. Fjórir krókódílar fundust einnig og voru þeir allir aflífaðir.

Slöngutegundin sem um ræðir er ekki þekkt fyrir að ráðast á fólk. 

Frétt mbl.is: Kyrkislagan sem drap bræðurna aflífuð

Frétt Sky.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert