Algjörlega óraunhæf fyrirheit

Barroso segir núverandi ríkisstjórn hafa lofað upp í ermina á …
Barroso segir núverandi ríkisstjórn hafa lofað upp í ermina á sér í aðdraganda kosninganna. AFP

Núverandi stjórnvöld í Grikklandi lofuðu upp í ermina á sér þegar gengið var til kosninga þar í landi, ef marka má Jose Manuel Barroso, fyrrverandi forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Í samtali við BBC sagði Barroso að kosningaloforð Syriza, flokks Alexiz Tsipras forsætisráðherra, hefðu verið algjörlega óraunhæf og að þær kröfur sem Grikkir hefðu gert í viðræðum um skuldir landsins væru algjörlega óásættanlegar í augum annarra ríkja.

„Það er ekki hjálplegt ef Grikkland ræðst á þau lönd sem eru að reyna að hjálpa því,“ sagði Barroso í samtali við Business Live. „Við skulum hafa í huga að það eru fátækari ríki að lána Grikklandi fé, þannig að tillögum þess efnis að lækka skuldir þeirra yrði örugglega mætt með nei-i hjá viðsemjendum þeirra.“

Barroso hvatti Grikki til að axla ábyrgð á þeim efnahagskröggum sem þeir væru í og ráðast í úrbætur, sem væru mikilvægasta málið sem lægi fyrir.

„Það var ekki Þýskaland eða nokkurt annað aðildarríki Evrópusambandsins sem skapaði vandamálin í Grikklandi, vandamálin í Grikklandi eru kerfislæg; lág framleiðni og fyrri ríkisstjórnir.“

Barroso sagði Grikki geta snúið við blaðinu líkt og Írar, Portúgalir og Spánverjar. Hann sagði ekkert koma í veg fyrr að Grikkland gæti náð góðum árangri en að „slæm pólítik“ hefði skapað mörg vandamál.

Úrganga Grikkja úr evrusamstarfinu myndi vekja efasemdir um myntbandalagið sagði Barroso, en afleiðingar hennar yrðu minni en áður, þar sem meira öryggi ríkti á fjármálamörkuðum.

Barroso kom einnig inn á stöðu Bretlands og sagði hana myndu versna til muna ef landið gengi úr Evrópusambandinu. Evrópulöndin þyrftu að standa saman til að standa jafnfætis stórveldum á borð við Bandaríkin og Kína.

BBC sagði frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert