„Bandaríkin lofuðu mér heimili“

Þúsundir ættleiddra í Bandaríkjunum vita ekki að þau eru ekki …
Þúsundir ættleiddra í Bandaríkjunum vita ekki að þau eru ekki ríkisborgarar. AFP

Fyrir rúmlega þrjátíu árum komu ung systkini frá Suður-Kóreu til Bandaríkjanna. Þar biðu þeirra bandarísk hjón sem ættleiddu þau en yfirgáfu þau sjö árum síðar. Börnin voru send í fóstur og skilin að.

Börnin voru bæði ættleidd á ný. Foreldrar stúlkunnar sóttu um ríkisborgararétt fyrir hana en drengurinn var ekki jafn heppinn. Foreldrar hans beittu hann ofbeldi og sóttu aldrei um leyfi fyrir hann til vera í landinu eða ríkisborgararétt líkt og þau hefðu átt að gera.

Drengurinn er tæplega fertugur í dag. Hann á erfitt með að fá vinnu þar sem hann ekki ríkisborgari. Þar að auki er hann heimilislaus og er á sakaskrá vegna glæpa. Hann er giftur og á þrjú börn en til stendur að vísa honum úr landi.

Saga mannsins er ekki einsdæmi. Þúsundir ættleiddra í landinu hafa ekki hugmynd um að þau séu ekki ríkisborgarar, ekki fyrr en þau sækja um vinnu, reyna að greiða atkvæði í kosningum eða sækja um vegabréf.

Frá sjötta áratug síðustu aldar hafa bandarísk pör ættleitt tæplega hálfa milljón barna frá öðrum löndum en um 100 þúsund þeirra komu frá Suður-Kóreu. Til ársins 2000 var það ábyrgð foreldra ættleiddra barna í Bandaríkjunum að sækja um ríkisborgararétt fyrir þau en þá voru sett lög kveða á um að slíkt gerist sjálfkrafa við ættleiðingu. Lögin voru ekki afturvirk og fellur maðurinn því ekki undir þau.

„Bandaríkin lofuðu mér heimili,“ sagði maðurinn fyrir dómi. „Ég bið landið um að halda loforð sitt. Ef ekki fyrir mig, þá fyrir börnin mín, svo þau þurfi ekki að alast upp án föður.“

Hér má lesa umfjöllun AP-fréttastofunnar um málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert