Fundu lík í jöklasprungu

Frá Annapurna fjalli.
Frá Annapurna fjalli. Af Wikipedia

Björgunarsveitarmenn hafa fundið lík finnska fjallgöngumannsins Samuli Mansikka og nepalska leiðsögumannsins Pemba  á Annapurna fjalli í Himalaja fjöllum í Nepal. Mennirnir féllu ofan í jöklasprungu er þeir voru á leið niður fjallið í síðustu viku.

Talið er að þeir Mansikka og Pemba hafi runnið og fallið ofan í sprunguna fyrir átta dögum síðan. 

Voru þeir á niðurleið er þeir létust en nokkrum dögum áður höfðu þeir náð upp á topp Annapurna sem er 8,091 metra hátt. 

„Við erum að reyna að ná í líkin en það hefur ekki tekist því þau eru föst í mjórri jöklasprungu,“ sagði yfirmaður ferðaþjónustunnar Dreamers Destination sem sérhæfir sig í fjallaferðum. 

„Þyrlur geta ekki lent á þessu svæði og það er erfitt fyrir fólk að fara ofan í sprunguna til að sækja líkin,“ bætti yfirmaðurinn við, Temba Tsering. 

Annapurna fjall er erfitt viðureignar. Bæði er tæknilega erfitt að klífa það en þar er jafnframt mikil snjóflóðahætta. Er dánartíðni fjallgöngumanna þar mun hærra en á Everest fjalli. 

Mansikka var 36 ára gamall og reyndur fjallgöngumaður. Hann var á leið niður fjallið 24. mars er hann og leiðsögumaðurinn féllu niður í sprunguna. 

Á hverju ári ferðast hundruðir manna frá öllum heimshornum til Nepal til þess að stunda fjallaklifur. Í apríl á síðasta ári létust 16 nepalskir leiðsögumenn í snjóflóði í Everest fjalli. Er það mannskæðasta slys í sögu fjallsins. Sex mánuðum síðar létust 43 í snjóstormi á Annapurna fjalli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert