Reyna enn að ná saman í Sviss

John Kerry andar að sér fersku lofti í viðræðuhléi í …
John Kerry andar að sér fersku lofti í viðræðuhléi í dag. AFP

Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Íran, hvatti ríki heims til þess að grípa tækifærið og láta af „óhóflegum kröfum“ í dag, en strangar viðræður um kjarnorkuáætlun landsins standa nú yfir í Sviss.

Utanríkisráðherra Frakka, Laurent Fabius, snéri aftur til Sviss í dag til að taka þátt í viðræðunum, en þar eru fyrir utanríkisráðherrar Bandaríkjanna, Bretlands og Þýskalands.

„Íran hefur sýnt vilja sinn til þátttöku með virðingu og það er tími til kominn að viðsemjendur okkar grípi tækifærið,“ sagði utanríkisráðherra Íran í dag. „Þjóð okkar og stjórnvöld í Íran hafa sýnt að þau vilja ná samkomulagi við heiminn en munu ekki samþykkja að lúta valdi og óhóflegum kröfum. Þeir sem við eigum í viðræðum við ættu að sætta sig við þennan raunveruleika,“ sagði Zarif.

Enn er óljóst hvort samningsaðilar ná saman um samkomulag sem tryggir að Íranir geti ekki þróað kjarnorkuvopn. Markmiðið er að þróa þann ramma sem nú er til umræðu í heildstætt samkomulag fyrir 30. júní, en þá rennur út tímabundið samkomulag frá 2013.

Mikið er í húfi, en takist samningar ekki, aukast líkur á hernaðaraðgerðum af hálfu Bandaríkjanna og Ísrael til að koma í veg fyrir að Íran öðlist getu til að smíða kjarnavopn. Hvíta húsið varaði við því í gær að sá valkostur væri enn á borðinu.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, verður í Lausanne í Sviss, þar sem viðræðurnar fara fram, að minnsta kosti fram á morgun. Þrátt fyrir að sá frestur sem menn höfðu sett sér hafi runnið út á miðnætti á þriðjudag, hafa utanríkisráðherra Rússa og aðalsamningamaður Íran gefið til kynna að þeir séu enn vongóðir um lendingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert