Segja óp heyrast á upptökunni

Björgunarmenn við brak úr vélinni.
Björgunarmenn við brak úr vélinni. AFP

Franskur saksóknari, sem leiðir rannsóknina á flugslysinu í frönsku Ölpunum, segir að sé einhver með myndbandsupptöku af slysinu verði sá hinn sami að láta yfirvöld fá hana.

Í morgun birtu franskir og þýskir fjölmiðlar frétt um að myndskeið hefði fundist á slysstað en á því mætti sjá síðustu augnablikin um borð í vélinni áður en hún hafnaði á fjallinu. Myndskeiðið á að hafa verið tekið upp á síma eins farþegans og sögðu fjölmiðlarnir að það hefði fundist á minniskorti á slysstað.

Franski saksóknarinn Brice Robin segist ekki hafa neina vitneskju um þetta myndskeið. 

Af hljóðupptöku sem fannst á öðrum hljóðrita vélarinnar, má ætla að aðstoðarflugmaðurinn, Andreaas Lubitz, hafi viljandi grandað vélinni. Allir sem voru um borð, 150 manns, létust.

Í frétt AFP um málið er haft eftir Robin að rannsakendur væru ekki enn farnir að skoða farsíma sem fundist hafi á slysstaðnum. Hann hafi því engar upplýsingar um að myndskeið af síðustu augnablikum flugsins hafi fundist.

Þýska blaðið Bild og franska fréttatímaritið Paris Match segjast hafa upptökuna undir höndum. Á henni megi heyra farþegana öskra og að augljóst sé að þeir geri sér grein fyrir í hvað stefni. Þá megi einnig heyra þegar slegið er í hurð flugstjórnarklefans með járni. Fram hefur m.a. komið að talið er að flugstjórinn, sem var læstur úti úr flugstjórnarklefanum, hafi reynt að brjóta sér leið þangað inn með öxi eða kúbeini.

Blaðamenn Paris Match segjast í samtali við Telegraph hafa fengið myndskeiðið frá aðilum sem tengist rannsókninni. Þeir segjast hafa séð það og geti staðfest að það sé ekta. „Við höfum rannsakað það ítarlega,“ segja þeir. Samkvæmt því sem þeir segja skemmdist síminn sem myndskeiðið var tekið upp á, en minniskortið fannst á slysstaðnum.

„Við erum viss,“ segir ritstjóri netútgáfu Bild. Myndskeiðið sé tekið upp aftarlega í vélinni en ekki sé hægt að bera kennsl á neina sem sjáist á því. 

Paris Match segir að svo mikil ringulreið sé í vélinni á myndskeiðinu að ekki sé hægt að bera kennsl á þá sem á því sjást. Hins vegar sé ljóst af öskrunum sem heyrast að fólk hafi vitað í hvað stefndi.

Robin segir að allir þeir sem hafi upptökur undir höndum „verði að afhenta rannsakendur þær,“ segir Robin við AFP-fréttastofuna. 

Thomas Winkelmann, forstjóri Germanwings, og Carsten Spohr, forstjóri móðurfélagsins  Lufthansa, heimsóttu slysstaðinn í dag. Spohr sagði að það myndi taka langan tíma að staðfesta hvað olli slysinu. 

Brak vélarinnar í fjallinu.
Brak vélarinnar í fjallinu. AFP
Carsten Spohr, forstjóri Lufthansa á blaðamannafundi við slysstaðinn í morgun.
Carsten Spohr, forstjóri Lufthansa á blaðamannafundi við slysstaðinn í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert