Líbíumenn vilja að Rússar aðstoði við að afnema vopnabann

Utanríkisráðherra Rússa, Sergei Lavrov, og forsætisráðherra Líbíu, Abdullah al-Thani.
Utanríkisráðherra Rússa, Sergei Lavrov, og forsætisráðherra Líbíu, Abdullah al-Thani. AFP

Forsætisráðherra Líbíu hefur óskað eftir aðstoð Rússa við að afnema vopnabann landsins sem var sett á af Sameinuðu þjóðunum. Abdullah al-Thani óskaði eftir aðstoð Rússa á fundi hans með utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, í dag.

„Við óskum eftir því að Rússar styðji okkur og taki afstöðu með fólkinu í landinu. Að þeir styðji við endurreisn stofnanna og landvarna Líbíu,“ sagði Thani.

Hann kallar eftir því að Rússland stígi skref „innan stofnanna alþjóðasamfélagsins“ til þess að binda enda á vopnabann landsins og þannig gera Líbíumönnum mögulegt að styrkja varnir landsins að nýju.

Líbísk yfirvöld fóru þess á leit við Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í febrúar sl. að vopnabannið yrði afnumið þannig að her landsins gæti barist við vígamenn í landinu en Vesturlöndin hafa verið treg til þess þar sem ríkisstjórnin stjórnar ekki nema hluta landsins.

Segir Vesturlönd bera ábyrgð á ringulreiðinni í Líbíu

Thani segir að Vesturlöndin verði að taka fulla ábyrgð á ástandinu sem nú ríkir í Líbíu en mikill óstöðugleiki hefur verið í landinu frá því að Muammar Gaddafi var steypt af stóli árið 2011.

„Vesturlöndin verða að taka fulla ábyrgð á ringulreiðinni í Líbíu," sagði Thani.

Lavrov sagði við fjölmiðla eftir fund þeirra í dag að viðræðurnar hefðu snúist um hvernig best væri að vinna að uppbyggingu í landinu með heillindum. „Rússland hyggst taka virkan þátt í því að koma á stöðugleika og bæta ástandið í landinu,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert